Mörg nú þegar leitað til kirkjunnar á Ólafsfirði

Ólafsfjarðarkirkja
Ólafsfjarðarkirkja mbl.is/Sigurður Bogi

Mörg hafa nú þegar leitað til prests í Ólafsfjarðarkirkju eftir að manndrápsmál kom upp á Ólafsfirði í nótt. Fjórir menn eru í haldi lögreglu vegna málsins en talið er að sá látni hafi verið stunginn með eggvopni.

Stefanía Guðlaug Steinsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarkirkju, segir að kirkjan verði opin í allan dag fyrir þau sem þangað leita og telja sig þurfa á stuðningi að halda.

„Kirkjan verður opin í dag fyrir þá sem vilja koma og það eru margir búnir að koma,“ segir Stefanía.

Rauði krossinn kemur á bænastund

Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri í Fjallabyggð, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að íbúar væru harmi slegnir vegna málsins. Stefanía tekur undir það.

Bænastund verður í kirkjunni klukkan átta í kvöld og viðbragðsteymi frá Rauða krossinum verður viðstatt bænastundina.  „Fólk getur talað við þau eða sóknarprest í kvöld,“ segir Stefanía.

„Kirkjan verður opin næstu daga og fólk getur líka hringt og pantað sér tíma,“ segir hún jafnframt.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur

Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra að óskað hefði verið eftir aðstoð lögreglu klukkan rétt rúmlega hálfþrjú í nótt, þar sem maður hefði verið stunginn með eggvopni í húsi á Ólafsfirði.

Þegar fyrstu lög­reglu­menn komu á vett­vang voru end­ur­lífg­un­ar­tilraun­ir hafn­ar á karl­manni sem var með áverka. Lækn­ir og sjúkra­flutn­inga­menn komu einnig á vett­vang en end­ur­lífg­un­ar­tilraun­ir báru ekki ár­ang­ur og var maður­inn úr­sk­urðaður lát­inn á vett­vangi.

Fram kom í tilkynningu lögreglu að ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu en ákvörðun um hvort farið yfir fram á gæsluvarðhald yfir einhverjum sakborninganna yrði tekin síðar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert