Borgin fái risaeðlu til sýnis

Risaeðlan er um 650 milljón ára gömul.
Risaeðlan er um 650 milljón ára gömul. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hluti úr beinagrind af risaeðlu gæti verið væntanlegur til Reykjavíkur, að því er segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar. Gripina fengi borgin að gjöf og eru þeir um 65 milljón ára gamlir.

Borgarráð samþykkti í dag að stofnaður yrði starfshópur til þess að meta kostnað við gjöfina, þar með talið flutning á beinagrindinni, uppsetningu hennar og varðveislu auk rekstrarkostnaðar og viðhalds á beinunum svo fátt sé nefnt. 

Kanna áhuga safna og sýningahaldara

Verður þá kannaður áhugi safna og sýningahaldara á að hýsa beinagrindina og annast kostnað samkvæmt sérstökum samningi. 

Hópinn munu skipa fulltrúar frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, menningar- og ferðamálasviði og frá skrifstofu atvinnuþróunar. Er honum þá gert að skila kostnaðaráætlun og ljúka störfum fyrir þann 23. maí 2023.

Vill að gjöfin verði í nafni móður hans

Þá metur hópurinn kostnað vegna smíði þeirra beina sem upp á vantar, fær staðfestan uppruna þeirra beina sem um ræðir og kannar áhuga safna og sýningarhaldara á að hýsa beinagrindina og annast kostnað samkvæmt sérstökum samningi. 

Framkvæmdastjóri samtakanna Leap Lab, Marcus Eriksen, óskaði eftir því að gefa Reykjavíkurborg hluta úr beinagrind af þríhyrnu en samtökin hafa staðið fyrir uppgrefti á risaðelubeinum í Wyoming-ríki í Bandaríkjunum. 

Marcus er hálfíslenskur forneifafræðingur og setur þau skilyrði fyrir gjöfinni að beinagrindin verði gefin í nafni móður hans og höfð til sýnis á safni eða sýningu í Reykjavík. Býðst Íslendingum að taka þátt í uppgreftri á fleiri beinum risaeðlunnar í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert