Ganga sátt frá borði

Ásdís Kristjánsdóttir segir að ríkur vilji og einhugur hafi verið …
Ásdís Kristjánsdóttir segir að ríkur vilji og einhugur hafi verið hjá bænum að leysa húsnæðismál HSSK. Samsett mynd

Kópavogsbær gengur sáttur frá borði eftir að hafa samþykkt kaup á tveimur lóðum þar sem Hjálparsveit skáta (HSSK) hefur verið með aðstöðu á Kársnesi.

Lóðirnar kosta 790 milljónir króna, að frá­dregnu virði annarr­ar lóðar sem hjálp­ar­sveit­in fær í staðinn út­hlutað frá bæn­um.

Einhugur hjá bænum

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir að ríkur vilji og einhugur hafi verið hjá bænum að leysa húsnæðismál HSSK, enda gegni starfsemi þeirra „gríðarlega mikilvægu hlutverki í almannavörnum í sveitarfélaginu“.

Fyrirhuguð uppbygging á Kársnesi og tilkoma borgarlínu geri það aftur á móti að verkum að starfsemi HSSK fari betur annars staðar.

Tveir valkostir

Ásdís segir að bæjarstjórn Kópavogs hafi í mars í fyrra skipað starfshóp um húsnæðismál HSSK og hann hafi skilað niðurstöðu í janúar síðastliðnum. Tveir valkostur voru tilgreindir þar, annars vegar að byggja húsnæði á lóðinni Tónahvarf 8 og hins vegar að kaupa nýbyggingu á lóðinni Turnahvarf. Upphæðin (790 milljónir) hafi verið samþykkt af bæjarstjórn Kópavogs síðar á þessu ári til kaups á húsnæði fyrir HSSK að Turnahvarfi 2 sem stóð til boða og var þá metin hagkvæmari lausn en að byggja nýtt hús í Tónahvarfi 8 en þeirri lóð hafði bærinn ekki úthlutað.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi.
Hjálparsveit skáta í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Samningar milli HSSK og eiganda að Turnahvarfi 2 gengu svo ekki eftir og óskuðu HSSK því eftir að fá að byggja hús í Tónahvarfi 8 og fá til þess jafn háa upphæð og áður hafði verið gefið vilyrði til þegar stefnt var að kaupum á húsnæði. Tónahvarfið er einnig hentug staðsetning og svarar betur þörfum björgunarsveitarinnar heldur en núverandi staðsetning en [björgunarsveitin] verður áfram með bátaaðstöðu á Kársnesi,“ segir Ásdís í svari við fyrirspurn mbl.is, en virði lóðarinnar í Tónahvarfi er um 100 milljónir króna.  

500 millljóna króna virði

Hún nefnir jafnframt að virði lóðanna sem Kópavogsbær fær í staðinn við sölu byggingaréttar sé um 500 milljónir króna, samkvæmt greiningu Eflu verkfræðistofu sem var unnin fyrir bærinn fyrr á árinu. Við þá upphæð muni bætast við árlegar útsvarstekjur þegar byggt hafi verið á lóðunum, eða um 100 milljónir á ári samkvæmt sömu greiningu.

Kársnes í Kópavogi.
Kársnes í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Spurð hvort þessar 790 milljónir króna teljist eðlilegt markaðsverð svarar Ásdís: „Fyrir þetta verð fáum við verðmætt byggingarland á þróunarsvæði og getum um leið tryggt aðstöðu fyrir HSSK, þannig að við göngum sátt frá borði.“ Bætir hún við að almennt líti Kópavogsbær til markaðsvirðis við kaup á fasteignum.

Ætlar bærinn að kaupa fleiri lóðir í tengslum við lagningu borgarlínu?

„Þegar endanleg lega borgarlínu liggur fyrir mun fara fram greining á því hvort nauðsynlegt verður að leysa til sín lóðir eða lóðarhluta,“ segir Ásdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert