Jón Hjaltason, frambjóðandi Flokks fólksins á Akureyri, kveðst reiðubúinn að víkja ef stjórn flokksins hrindir í framkvæmd eigin samþykkt um að skipa hlutlausa rannsóknarnefnd sem á að fara ofan í kjölinn á því máli sem komið hefur upp innan flokksins.
Því næst vill hann að blaðamannafundur verði haldinn í húsakynnum Flokks fólksins þar sem konurnar þrjár, formaður og varaformaður, játi mistök, biðjist afsökunar og dragi „allan ósómann“ til baka.
Jón situr enn í skipulagsráði Akureyrar en hefur þó sagt sig úr Flokki fólksins eftir að karlaforysta flokksins var m.a. sökuð um einelti, andlegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti af þremur konum á lista flokksins, Málfríði Þórðardóttur, Tinnu Guðmundsdóttur og Hannesínu Scheving Virgild Chester.
Í skoðunarpistli Jóns sem birtist í Fréttablaðinu í dag, og ber yfirskriftina Vér svikarar, rekur hann samskipti sín við aðra flokksmenn, meðal annars formanninn Ingu Sæland, síðastliðna mánuði frá sínu sjónarhorni.
Samkvæmt frásögn hans þá hafði enginn minnst orði á kynferðislega áreitni eða svæsið einelti áður en Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður flokksins, skrifaði færslu um það á Facebook í síðasta mánuði.
„Við hin „ónefnda karlaforysta“ komum hins vegar af fjöllum. Þessar sakargiftir höfðu aldrei fyrr verið nefndar í okkar eyru, Inga Sæland aldrei reynt sættir eins og hún vill þó vera láta, hvað þá að varaformaðurinn hafi borið þessar ávirðingar undir okkur áður en hann hleypti þeim í loftið fyrir alþjóð að sjá,“ skrifar Jón.
„Nú verður hver að dæma fyrir sig en í mig er hlaupin kergja. Ég skil hins vegar gagnrýni Ingu Sæland og er reiðubúinn að víkja ef stjórn flokksins hrindir í framkvæmd eigin samþykkt um að skipa hlutlausa rannsóknarnefnd er fari ofan í kjölinn á þessu máli. Síðan verði haldinn blaðamannafundur í húsakynnum Flokks fólksins þar sem konurnar þrjár, formaður og varaformaður játi mistök, biðjist afsökunar og dragi allan ósómann til baka – því ég er ekki í nokkrum vafa um niðurstöðu slíkrar rannsóknar.“