Snjókomu að vænta á norðvestanverðu landinu

Helga segir að nú þegar sé orðið hvasst nyrst á …
Helga segir að nú þegar sé orðið hvasst nyrst á landinu og á Vestfjörðum. mbl.is/Sigurður Ægisson

Vaxandi lægð verður lónandi við austurströndina í dag. Henni fylgir verulega hvöss norðanátt og mikil úrkoma á norðanverðu landinu sem fellur að miklu leyti sem slydda eða snjókoma.

Mesta úrkoman er um landið norðanvert.  Hlýjast verður austast en kaldast vestast og því má búast við snjókomu á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, en að slydda og úrkoma muni skiptast á eftir því sem austar dregur, að sögn Helgu Ívarsdóttur veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Sunnan heiða verður minni úrkoma, en búast má við sandfoki eða grjótfoki suðaustanlands seinnipartinn og í kvöld, þegar vindur nær hámarki þar. 

Lægja fer svo í nótt. Útlit er fyrir hæglætisveður vestantil á landinu á morgun, en eystra gengur norðvestanáttin smám saman niður, að því er fram kemur í hugleiðing veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Snjóflóðahætta til fjalla

Samkvæmt veðurspá mun hitastig á láglendi á Austurlandi að Glettingi vera á bilinu 4 til 6° fram til kl 15 í dag en þá fer að kólna. Miðað við magn úrkomu sem er spáð á svæðinu er tilefni til þess að vara við aukinni skriðuhættu í þessum landshluta.

Snjóflóðahætta getur einnig skapast til fjalla á Norður og Norðausturlandi en ekki er talin hætta í byggð.

Spáin að ganga eftir

„Þetta virðist bara vera nokkuð stöðugt og lægðin er að nálgast landið og dýpka hratt. Spáin er að ganga eftir.“

Helga segir að nú þegar sé orðið hvasst nyrst á landinu og á Vestfjörðum.

Ágætis veður verður á höfuðborgarsvæðinu í dag, en helst gæti orðið hvasst á Kjalarnesi og á vestasta hluta svæðisins. „Þessu fylgir ekki úrkoma, höfuðborgarsvæðið kemur best úr þessu.“

Veturinn lætur vita af sér

Helga segir veturinn skella óvenju þungt á þetta árið. 

„Rauð viðvörun er sjaldan gefin út. Kannski einu sinni til tvisvar á ári, svo það er óvenjulegt að fá tvær svona nálægt hvor annarri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert