Gagnrýnir Isavia: „Ég meina þetta í fúlustu alvöru“

Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og …
Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og setja hana í forgang þurfa þau að sýna þann vilja í verki, segir Eiríkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lensku nú­tíma­máli við Há­skóla Íslands, gagnrýnir svör upplýsingafulltrúa Isavia í samtali við mbl.is í gær, þar sem fram kom að ekki væri hafin vinna við að gera íslensku hærra undir höfði í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Eins og þekkt er þá eru merkingar á ensku fyrst, á öllum upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar, og svo fylgja merkingar á íslensku.

„Margsinnis hafa verið gerðar athugasemdir við þetta, án árangurs,“ segir Eiríkur, en hann gerir viðtal gærdagsins að umfjöllunarefni í Málspjallinu undir yfirskriftinni Lágkúra Isavia.

Heggur hann einkum eftir þessum ummælum upplýsingafulltrúans, Guðjóns Helgasonar:

„Við höf­um enn ekki hafið þá vinnu að end­ur­skoða hvernig við get­um mögu­lega bet­ur sam­einað þau sjón­ar­mið að tryggja flæði og ör­yggi farþega á flug­vell­in­um ásamt því að halda ís­lensk­unni á lofti á sama tíma.“

Nei frá ráðuneytinu, rúmu ári síðar

Eiríkur svarar:

„Isavia hefur „enn ekki hafið þá vinnu“ að gera íslenskunni hærra undir höfði þrátt fyrir að stjórn Íslenskrar málnefndar hafi nokkrum sinnum skrifað Isavia um málið, bæði 2016 og 2017, en fyrirtækið hefur aldrei látið svo lítið að svara.

Stjórnin skrifaði einnig forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra um málið og fékk lítil viðbrögð, nema hvað samgönguráðuneytið taldi í bréfi frá 18. október 2017 (sem var svar við bréfi stjórnarinnar 17. júní 2016 !!!) að ákvæði laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem segir að íslenska sé mál stjórnvalda ættu ekki við þótt Isavia sé ríkiseign þar sem engar greiðslur rynnu til þess frá ríkinu – sem er í besta falli umdeilanleg lögskýring.“

Enskan fyrst og íslenskan svo. Þannig er því háttað um …
Enskan fyrst og íslenskan svo. Þannig er því háttað um alla Leifsstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair setti íslenskuna aftur í fyrsta sæti

Morgunblaðið greindi frá því í gær að Icelandair hefði ákveðið að setja íslensku aftur í fyrsta sæti, við ávörp flugliða til farþega, eftir að hafa horfið frá því nokkrum árum fyrr. 

Að sögn forstjórans Boga Nils Bogasonar höfðu íslenskir farþegar kvartað og lýst því yfir að þeir vilji vera boðnir velkomnir heim á íslensku. Þá ýtti Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra á eftir því að þessu yrði breytt.

„Á fyrsta fundinum sem ég og Lilja áttum eftir að hún tók við þessu starfi sem menningar- og ferðamálaráðherra þá nefndi hún þetta, sem ýtti mjög vel við okkur og við ákváðum bara að breyta þessu til baka,“ sagði Bogi og viðurkenndi að gott væri að geta skipt um skoðun.

Þjóðtungan verði höfð á undan

Guðjón kvaðst í gær að mörgu leyti sam­mála Boga, en sagði flug­völl­inn þó enn leggja mikla áherslu á alþjóðlega tungu­málið ensku.

„Leiðbein­inga­skilt­in eða veg­vís­ar hafa ákveðið hlut­verk á flug­vell­in­um sem snýr að því að farþegar kom­ist hratt og ör­ugg­lega milli staða. Mik­ill meiri­hluti farþega sem fara um Kefla­vík­ur­flug­völl skil­ur ekki ís­lensku,“ sagði hann.

Eiríkur svarar þessum rökstuðningi á þessa leið:

„Auðvitað dettur engum í hug að hætta að hafa ensku á skiltunum. Það er bara verið að fara fram á að þjóðtungan sé höfð á undan, eins og gert er víðast hvar á evrópskum flugvöllum – meira að segja þótt fáir skilji viðkomandi tungumál. Á Írlandi er írska höfð á undan ensku, og í Skotlandi er skosk-gelíska víða á undan ensku. Fáir skilja þau mál, en það hefur samt ekki frést að öryggi á írskum og skoskum flugvöllum sé stefnt í voða vegna þessa.“

Þessu skilti í Leifsstöð var snarlega breytt eftir umfjöllun mbl.is …
Þessu skilti í Leifsstöð var snarlega breytt eftir umfjöllun mbl.is snemma í faraldrinum. Enskan var þó áfram í fyrirrúmi. mbl.is/SH

Farþegar upplifa sig ekki á Íslandi

Guðjón sagði enn fremur í viðtalinu að mikil tækifæri væru fyrir hendi, hvað varðar íslenska tungu og menningu í flugstöðinni, enda séu þær ofarlega á blaði þegar kemur að framtíðaruppbyggingu á vellinum.

„Íslensk­an skipt­ir Isa­via miklu máli. Við vilj­um að farþeg­arn­ir okk­ar upp­lifi það að þeir séu á Íslandi inni í flug­stöðinni á Kefla­vík­ur­flug­velli,“ sagði Guðjón.

Prófessorinn gefur lítið fyrir þessi tilsvör.

„Það er nú einmitt það sem hefur verið kvartað yfir – að farþegar upplifa það ekki að þeir séu á Íslandi. Fyrirtækið þykist ætla að leggja áherslu á íslenskuna „þegar kem­ur al­mennt að framtíðar­upp­bygg­ingu“ en gerir ekkert í samtímanum.“

Þurfa að sýna viljann í verki

Að lokum bendir hann á að Isavia sé opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og að fjármálaráðherra fari með eina hlutabréfið.

„Nú liggur beint við að á næsta hluthafafundi leggi ráðherrann fram tillögu um að Isavia breyti um stefnu og hafi íslensku á undan ensku á skiltum í Leifsstöð. Ráðherrann þarf síðan ekki annað en greiða atkvæði með eigin tillögu til að hún sé samþykkt einróma. Ég meina þetta í fúlustu alvöru.

Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og setja hana í forgang þurfa þau að sýna þann vilja í verki. Menningar- og viðskiptaráðherra hefur gert það á ýmsan hátt, nú síðast með því að þrýsta á Icelandair – nú er komið að fjármálaráðherra. Yfir til þín, Bjarni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert