Bíll valt við Þingvallaveg, upp undir Kjósarskarði, á tólfta tímanum í gærkvöldi. Ökumaðurinn var einn á ferð og var kominn sjálfur út úr bílnum þegar sjúkrabíll kom að til að flytja hann á slysadeild til aðhlynningar.
Ekki er vitað um meiðsli. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og fleiri umferðarlagabrot, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um umferðarslys í Árbænum upp úr klukkan eitt í nótt. Bifreið var ekið á ljósastaur og mun ökumaðurinn hafa yfirgefið vettvang. Bifreiðin var flutt af vettvangi af Króki og var Orkuveitunni tilkynnt um ljósastaurinn.
Kona var handtekin í Grafarholti á tólfta tímanum í gærkvöldi. Hún var búin að nota fíkniefni, öskraði stanslaust og náðu lögreglumenn ekki að ræða við hana. Konan var vistuð í fangageymslu sökum ástands.
Fíkniefnaræktun fannst á iðnaðarsvæði í hverfi 200 í Kópavogi á sjötta tímanum í gærkvöldi. Plöntur og tæki voru gerð upptæk og skýrsla var tekin af húsráðanda.
Tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 108 á áttunda tímanum í gærkvöldi. Bifreið var ekið út af vegi og upp á umferðareyju. Ökumaðurinn fann til eymsla í höfði og hálsi og var hann fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild.
Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Reykjavík á níunda tímanum í gærkvöldi. Maður með svarta andlitsgrímu kom inn í verslun og stal peningum úr sjóðsvél. Málið er í rannsókn.
Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur á níunda tímanum í gærkvöldi. Lögreglan hafði haft ítrekuð afskipti af honum. Tilkynnt var um að hann væri meðvitundarlaus sökum ölvunar og síðar var tilkynnt að hann væri kominn á veitingahús og neitaði að fara þaðan þegar starfsfólkið vísaði honum út. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Tilkynnt var um innbrot í sumarhús í hverfi 221 í Hafnarfirði. Farið var inn og stolið sjónvarpi, ryksuguróbóta og fleiri verðmætum.
Fimm bifreiðar voru stöðvaðar á Kringlumýrarbraut á milli klukkan níu í gærkvöldi og eitt í nótt. Bifreiðin sem fór hraðast var á 121 km hraða en þarna er hámarkshraði 80 km/klst. Ökumennirnir viðurkenndu brot sín og voru vettvangsskýrslur ritaðar. Einn þeirra er 17 ára og var forráðamanni tilkynnt um afskipti lögreglu og tilkynning var send til barnaverndar.