Brynjólfur og fréttastofa RÚV ekki brotleg

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Brynjólfur Þór Guðmundsson fréttamaður og fréttastofa RÚV hafi ekki brotið gegn þriðju grein siðareglna Blaðamannafélagsins. Þetta er fimmta málið sem siðanefnd BÍ tekur fyrir á þessu ári. Frá því er greint á heimasíðu félagsins. 

Arna McClure lögfræðingur Samherja kærði Brynjólf og fréttastofu RÚV fyrr á þessu ári fyrir að brjóta þriðju grein siðareglna blaðamanna vegna orðalags í frétt sem birtist á RÚV 9. maí sl. Orðalagið sem þótti brjóta 3ju grein siðareglna var eftirfarandi:

„Þrír fréttamannanna höfðu fjallað um samskipti svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja, sem hafði samræmt atlögu að fréttamönnum sem fjölluðu um framgöngu Samherja í Namibíu og ásakanir um lögbrot fyrirtækisins og stjórnenda þess.“ 

Kærð ummæli brjóta ekki þriðju grein siðareglna 

Í niðurstöðu siðanefndar frá 27. september sl. segir að ekki hafi verið brotið gegn þriðju grein siðareglna blaðamanna vegna téðs orðalags. Þar segir eftirfarandi:

„Kærandi telur tilgreinda málsgrein í fréttinni stangast á við þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Umrædd frétt fjallar um niðurstöðu Landsréttar og er forsaga málsins rakin stuttlega með vísan í orðalag sem margoft hefur verið notað í opinberri umræðu. Framkomin gögn styðja þann gildisdóm sem fram kemur í þeirri setningu sem nefnd er í kærunni. Ekkert kallar á að leitað sé til kæranda vegna þessarar fréttar eða að hana megi ekki segja nema öll gögn málsins séu fyrirliggjandi. Siðanefnd fellst ekki á að kærð ummæli brjóti gegn þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert