Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem kröfu Suleiman Al Masri, hælisleitanda frá Palestínu, um endurupptöku á máli sínu var synjað.
Íslenska ríkinu hefur jafnframt verið gert að greiða honum um 1,3 milljónir króna í málskostnað.
Masri er einn þeirra hælisleitenda sem ekki var hægt að brottvísa úr landi á meðan kórónuveirufaraldurinn geisaði. Hann sótti um vernd á Íslandi í október árið 2020.
Útlendingastofnun ákvað að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu vegna þess að honum hafði þegar verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi árið áður.
Masri skaut ákvörðuninni til kærunefndar útlendingamála í febrúar í fyrra þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að þegar stóð til að vísa manninum frá landi hafi hann neitað að mæta í Covid-sýnatöku og ekki viljað fara til Grikklands. Síðar óskaði hann eftir því að málið yrði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála, sem hafnaði kröfu hans.
Stefndi, íslenska ríkið, lagði áherslu á að vegna Covid-19 hefði fjöldi ríkja, sem og ýmis flugfélög, gert kröfu um að einstaklingar framvísuðu bólusetningarvottorði eða upplýsingum um neikvæða sýnatöku. Hafi fjöldi útlendinga sem borið hafi að fara frá Íslandi neitað að mæta í sýnatöku til að komast undan framkvæmd ákvörðunar stjórnvalda um brottvísun eða frávísun.
Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að slík umsókn barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjandans. Fyrir liggi að meðferð málsins hafi ekki lokið með flutningi hans úr landi innan 12 mánaða tímabilsins.
„Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Var úrskurður kærunefndar útlendingamála að þessu leyti byggður á efnisannmarka sem telst verulegur. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnanda um að ógiltur verði úrskurður nefndarinnar frá 18. nóvember 2021 þar sem synjað var beiðni hans um endurupptöku málsins,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Helgi Þorsteinsson, lögmaður Masri, segir að í dóminum sé það staðfest með afgerandi hætti að stjórnvöld hafi ranglega kennt viðkomandi um tafir í máli sínu. Því hafi verið óréttmætt með öllu að synja viðkomandi um endurupptöku máls.
„Dómur þessi er fordæmisgefandi fyrir þann fjölmenna hóp hælisleitenda sem ílengdist hér á landi vegna faraldurs kórónuveiru þar sem aðstæður eru sambærilegar frá máli til máls og verklag stjórnvalda í grunninn það sama,“ segir Helgi við mbl.is.
„Að fengnum dómnum er ljóst að stjórnvöldum er ekki stætt á öðru en að bregðast við og koma í veg fyrir mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar.“