„Þetta eru mjög óeðlileg afskipti ráðuneytisins“

Arndís segir hryggilegt að dómsmálaráðuneytið sjá sér hag í að …
Arndís segir hryggilegt að dómsmálaráðuneytið sjá sér hag í að koma af stað umræðu um einstök mál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tek bara undir það sem Bryndís Haraldsdóttir hefur verið að segja. Hún bendir á að það er þessi undirnefnd sem vinnur þessi mál og við skoðum öll mál mjög gaumgæfilega,“ segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sem á sæti í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar sem fer yfir umsóknir um ríkisborgararétt.

Hún segir það hryggilegt að dómsmálaráðuneytið sjái sér hag í því að koma af stað umræðu í fjölmiðlum um einstök mál. Slíkt setji þá einstaklinga í vonda stöðu sem fengið hafi ríkisborgararétt gegnum þingið. Nöfn þeirra séu birt opinberlega. „Þetta er bara mjög alvarlegt,“ segir þingmaðurinn.

Augljóslega tengt ákveðnum kröfum

Hún segir Alþingi hvergi þurfa að rökstyðja hvert mál fyrir ráðuneytinu, þingið sinni þessari vinnu sjálft. „Þetta eru mjög óeðlileg afskipti ráðuneytisins af störfum nefndarinnar og mjög augljóslega tengd ákveðnum kröfum sem ráðuneytið og Útlendingastofnun hafa verið að setja á þingið um hvernig eigi að vinna þessi mál,“ heldur Arndís áfram og bætir því við að þingið hafi ekki viljað breyta sínu ferli í þá átt sem þessar stofnanir telji æskilegt.

„Mér þykir mjög miður að verið sé að kasta rýrð á störf nefndarinnar og á einstaklinga, þá á ég við það fólk sem fengið hefur ríkisborgararétt gegnum Alþingi. Þetta eru óeðlileg afskipti sem mjög hryggilegt er að sjá,“ segir Arndís sem að lokum er spurð út í hvernig það megi vera að fólk á boðunarlista í afplánun fái ríkisborgararétt.

Kemur ekki til greina að ræða einstök mál

„Það kemur auðvitað ekki til greina að ég fari að ræða einstök mál og einstakar umsóknir í fjölmiðlum. Við skoðum hvert einasta mál og við höfum mjög ítarleg persónuleg gögn um alla umsækjendur. Við óskum eftir umsögn lögreglunnar og öllum upplýsingum um stöðu fólks á Íslandi. Þeir sem sækja um í gegnum Alþingi eru þeir sem uppfylla ekki öll skilyrði laganna. Fólk þarf að uppfylla mjög ströng skilyrði til að fara í gegnum Útlendingastofnun og gagnrýni ráðuneytisins beinist einmitt að þessum þætti,“ segir Arndís Anna, þingmaður Pírata, að lokum.

Birgir Þórarinsson, formaður undirnefndarinnar, vildi ekki tjá sig um málið við Morgunblaðið. 14

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert