„Ég veit ekki um neinn annan vettvang þar sem slík orðaskipti hafa átt sér stað milli háttsettra fulltrúa NATO og Kína að viðstöddum hátt á annað þúsund áhorfendum,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, stofnandi og stjórnarformaður Hringborðs norðurslóða, í samtali við mbl.is.
Ólafur segir andrúmsloftið hafa verið spennuþrungið þegar Rob Bauer aðmíráll, formaður hermálanefndar NATO, hélt erindi á þingi Hringborðs norðurslóða í gær. Þar gagnrýndi hann viðbrögð Kína við innrás Rússa í Úkraínu. Atvikið hefur ratað í fjölmiðla erlendis og fjallaði meðal annars fréttastofa Bloomberg um málið.
„En þessi orðaskipti endurspegla líka þær grundvallarreglur hringborðsins að vera opinn lýðræðislegur vettvangur þar sem menn geta flutt mál sitt og þar sem spurningar og svör eru ríkur þáttur í framgangi málstofa þingsins og allsherjarfundum þess,“ segir Ólafur.
„Nánast allir aðrir alþjóðlegir vettvangar og alþjóðastofnanir ganga bara eftir einhverjum formlegheitum. Þarna urðu allt í einu til lifandi orðaskipti sem voru satt að segja alveg mögnuð. Það mátti heyra saumnál detta í þessum risastóra sal Hörpunnar.“
Ólafur segir ræðu Bauers hafa verið mun víðtækari, ekki aðeins snert á loftslagsbreytingum og framtíð norðurslóða heldur einnig á stríðsástandinu í Evrópu og hvaða ályktanir mætti draga af samskiptum við Rússa og Kína.
„Bauer var afdráttarlaus í sínum málflutningi og talaði mjög skýrt. Það var svo til þess að hinn nýi sendiherra Kína á Íslandi sem var í salnum, hann stóð upp og ég stjórnaði þessum samræðum frá sviðinu,“ segir Ólafur.
„Ég held að allir á staðnum hafi áttað sig á því að þetta var söguleg stund.“
Þinginu, Hringborði norðurslóða, lauk formlega í dag. Ólafur segir þingið hafa markað ákveðin þáttaskil.
„Ég held að það festi Ísland í sessi sem ákveðinn griðastað og samkomustað fyrir nauðsynlegar samræður um brýn viðfangsefni, bæði framtíð norðurslóða og loftslagsbreytingar, en líka samstarf og samvinnu í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum.“
Ólafur segir að margir hafi tjáð honum að Ísland væri orðið einn af fáum stöðum í veröldinni þar sem hægt er að ræða brýn og viðkvæm málefni á opinberum vettvangi. Á öllum þeim fundum sem hann hafi setið hafi eindregið verið óskað eftir öflugra og viðtækara þingi næstu ár.
Rannsóknarteymi við Háskólann á Svalbarða hlaut Frederik Paulsen verðlaunin og styrk upp á 100 þúsund evrur, sem jafngildir um 14 milljónum íslenskra króna.
„Það vakti í lok þingsins gríðarlega athygli og því var tekið sem sterkum skilaboðum um hið mikilvæga hlutverk vísinda í stefnumótum í loftslagsmálum og í málefnum norðurslóðum á næstu árum. Allt þetta var efniviður í áframhaldandi starfsemi á þessum vettvangi.“
Munum við sjá enn stærra þing á næsta ári?
„Nú er það þannig að hringborðið er eins og ég sagði frjáls lýðræðislegur og opinn vettvangur þannig þátttaka ræðst af áhuga og þeirra sem vilja koma. En ég finn það bæði þessa þingdaga og eins á alþjóðlegum samfélagsmiðlum þar sem þátttakendur og aðrir, bæði á Twitter og annarsstaðar, eru að hæla því í alla staði að orðspor þingsins mun breiðast út enn frekar,“ segir Ólafur.
„Nú mun Hringborðið halda þing í Abu Dhabi í janúar og Tokyó í mars og svo gerðist það undir lok þingsins að sérstakur fulltrúi þýsku ríkisstjórnarinnar kom á sviðið og tilkynnti það að þýska ríkisstjórnin hafi boðið Hringborðinu að halda þing í Berlín snemma árs árið 2024.“