Núverandi lög ná ekki yfir heildstæða skólaþjónustu

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sótti móltmæli framhaldsskólanema á …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sótti móltmæli framhaldsskólanema á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarkona menntamálaráðherra, segir að fyrir liggi að leggja þurfi niður Menntamálastofnun og breyta verkefnum stofnunarinnar það mikið að það rúmist ekki innan lagarammans eins og hann er í dag.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag af Ásmundi Einar Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, voru kynnt áform um lagasetningu um heildstæða skólaþjónustu á öllum stigum leik- grunn- og framhaldsskóla.

Ekki náðist í Ásmund Einar vegna málsins.

„Það þarf því að leggja niður stofnunina og það þarf að gera með lögum. Vegna þess þarf að segja upp öllu starfsfólki stofnunarinnar og öll störf verða auglýst fyrir nýja stofnun.“

Vantar þjónustuhlutann í núverandi lög

Í áformaskjalinu sem kynnt var í dag segir að gildandi lög um Menntamálastofnun falli ekki að þeim markmiðum sem stefnt sé að.

„Í núgildandi lögum er Menntamálastofnun stjórnsýslustofnun sem hefur meðal annars eftirlit með skólastarfi og fer með söfnun og greiningu upplýsinga um menntamál. Lögin fjalla ekkert um skólaþjónustu og ávarpa ekki nægilega vel það þjónustu- og stuðningshlutverk sem ætlunin er að styrkja.” Einnig er bent á að bæði Ríkisendurskoðun og Capacent hafi bent á vankanta á framkvæmd laganna þegar kemur að verkaskiptingu MMS, ráðuneytis og sveitarfélaga.

Sóley Ragnarsdóttir aðstoðarkona Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra.
Sóley Ragnarsdóttir aðstoðarkona Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra.

Ekki að fara að gerast á morgun

Hún leggur þó áherslu á að enn séu þetta áform um lagasetningu. 

„Við viljum að frumvarp til nýrra laga um skólaþjónustu verði unnið í samtali við sérfræðinga og hagaðila. Hugmyndin á þessu stigi er að ný stofnun verði í meira þjónustuhlutverki fyrir öll skólastigin óháð búsetu og sinni meiri stuðningi, ekki bara fyrir nemendur heldur líka fyrir starfsfólk skólanna.

Hún segir að námsgagnagerð og fleira sem hefur verið á könnu Menntamálastofnunar hingað til verði líklega áfram hjá nýrri stofnun. „En þetta eru áformin og síðan er verið að vinna í útfærslunni. Það er ekki komið frumvarp enn og allar svona breytingar þurfa að gerast með lögum sem þarf að samþykkja á Alþingi og þar á undan er ákveðið þinglegt ferli sem tekur ákveðinn tíma, svo þetta er ekki að fara að gerast á morgun. En það verða tilfærslur á verkefnum og við sjáum fyrir okkur töluvert breytta stofnun.“

Búist er að námsgagnagerð og fleiri verkefni núverandi Menntamálastofnunar verði …
Búist er að námsgagnagerð og fleiri verkefni núverandi Menntamálastofnunar verði áfram hluti af væntanlegri stofnun, sem muni þó hafa mun víðtækara þjónustuhlutverk. mbl.is/Hari

Eins og hægt sé að hringja í vin

Hún segir að hugsunin sé sú að kennarar og aðrar þjónustustéttir innan skólakerfisins hafi meira bakland í heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu ef einhver mál koma upp.

„Við höfum fundið að það er mikið kallað eftir meiri  stuðningi og handleiðslu og ráðgjöf innan skólakerfisins og viljum bregðast við því. Þá þarf að vera einhver til staðar sem hægt er að hringja í. Við líkjum þessu stundum við „Viltu vinna milljón“ þar sem fólk getur hringt í vin. Við viljum að það sé heildstæð löggjöf sem geti verið undirstaða fyrir miðlægan aðila til að gegna því hlutverki fyrir skólakerfið að vera þessi vinur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert