Menntamálastofnun lögð niður

Ásmundur Einar kynnir í dag viðamiklar breytingar sem ráðist verður …
Ásmundur Einar kynnir í dag viðamiklar breytingar sem ráðist verður í á menntakerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Menntamálastofnun verður lögð niður og mun ný stofnun, sem hefur m.a. það hlutverk að tryggja gæði menntunar, taka við hluta af verkefnum hennar. Eftirlit með skólastarfi verður aðgreint frá þjónustu og ráðgjöf, og færist til mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrst um sinn.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir sem nýlega var skipuð forstjóri Menntamálastofnunar til fimm ára, mun stýra og vinna að uppbyggingu nýju stofnunarinnar, að því er fram kemur í tilkynningum Stjórnarráðsins. Hún er skipuð frá og með morgundeginum 18. október.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir í dag viðamiklar breytingar sem ráðist verður í á menntakerfinu. Markmiðið er að styrkja skólaþjónustu þvert á skólastig með nýjum heildarlögum um skólaþjónustu og nýju stofnuninni.

Aðgerðirnar eru liður í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030, samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og Barnvænu Íslandi.

Tryggja gæði og aðgengi

Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir að hlutverk nýju stofnunarinnar sé að tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Þórdís Jóna nýr forstjóri Menntamálastofnunar. Hún mun stýra stofnuninni sem …
Þórdís Jóna nýr forstjóri Menntamálastofnunar. Hún mun stýra stofnuninni sem tekur við af verkefnum hennar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þar kemur einnig fram að Þórdís Jóna hafi verið metin hæfust úr hópi fjölda hæfra umsækjenda að fenginni umsögn frá ráðgefandi hæfnisnefnd. Hún er með B.A.-próf í stjórnmálafræði og M.A.-próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MBA-próf frá Vlerick Business School. Þá hefur hún einnig lokið leiðtoganámi og námi í innleiðingu stefnumótunar frá Harvard Business School.

Markmiðið að efla samvinnu

Markmið nýrra laga um skólaþjónustu er að tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum verkefnum ásamt því að efla þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu nemenda.

„Engin heildarlöggjöf er til staðar um skólaþjónustu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og engin miðlæg stofnun með skilgreint hlutverk að framkvæma og samhæfa þessa þjónustu. Aðgengi að þjónustu og ráðgjöf er mismunandi, bæði milli og innan skólastiga og sveitarfélaga, sem leiðir til ójafnræðis,“ er haft eftir Ásmundi í tilkynningunni.

„Við þurfum að samhæfa kerfin til að tryggja yfirsýn, skilvirkni og gæði þjónustunnar, svo sem þegar nemendur flytjast á milli skóla eða færast milli skólastiga. Meiri ráðgjöf við starfsfólk skóla og stuðningur við skólastarfið leiðir til hraðari og skilvirkari úrræða fyrir börn og ungmenni. Allt sem við gerum á að miða að farsæld þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka