Jafngildir losun frá 800 fólksbílum á ári

Berserkseyri.
Berserkseyri. Skjáskot úr myndskeiði Votlendissjóðs

Votlendissjóður hefur endurheimt votlendi á tveimur jörðum þetta haust. Hefur starfið skilað þeim árangri að komið hefur verið í veg fyrir losun á 1.600 tonnum af koltvíoxíði árlega.

Jarðirnar eru Berserkseyri við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi og Móberg á Rauðasandi á Vestfjörðum.

Sú fyrrnefnda er um 30 hektarar að stærð og sú seinni rúmlega 50 hektarar. Þannig er um að ræða endurheimt votlendis á um það bil 80 hektara svæði. Með því er áætlað að komið hafi verið í veg fyrir losun á 1.600 tonnum af koltvíoxíði á ársgrundvelli. Það jafngildir losun frá 800 fólksbílum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Votlendissjóður naut aðstoðar Landgræðslunnar við undirbúning, framkvæmd og vöktun eins og við öll fyrri verkefni sjóðsins. 

„Framundan eru spennandi verkefni víðs vegar á landinu og bíða verkefni meðal annars í Flóahreppi samþykkis sveitarstjórnar, sem og í Árborg. Með endurheimt votlendis er á auðveldan og tiltölulega ódýran hátt hægt að ná miklum árangri í að stöðva losun, svo ekki sé minnst á ábata dýralífs og endurheimt vistkerfa sem fylgja slíkum framkvæmdum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka