Forsvarsmenn Hraunvallaskóla í Hafnarfirði munu ekki tjá sig sérstaklega vegna máls 12 ára stúlku úr skólanum sem reyndi að fremja sjálfsvíg vegna grófs eineltis. Þetta kemur fram í svari samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn mbl.is.
„Eins og Hafnarfjarðarbær hefur gefið út þá eru öll mál tekin alvarlega og viðeigandi lausnir og úrræði unnin í samstarfi fagaðila og fjölskyldu. Þetta gildir almennt um öll mál og er þetta mál þar engin undantekning. Það er mjög virkt samtal að eiga sér stað innan skólasamfélagsins í Hraunvallaskóla, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum,“ segir í svari samskiptastjórans.
Mbl.is hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Lars Jóhann Imsland, skólastjóra Hraunvallaskóla, og aðstoðarskólastjóra síðan málið kom upp í von um að fá upplýsingar um viðbrögð skólans við málinu en án árangurs.
Móðir stúlkunnar sem varð fyrir eineltinu sagði það hafa verið slæmt í rúmt ár og að um 30 börn hafi tekið þátt í því. Skólayfirvöld hafi lítið hjálpað en að lögreglan skoði málið. Þá séu barnaverndaryfirvöld einnig með það á sínu borði.
Fram kemur í svari samskiptastjórans að það sem mestu máli skipti sé að hópurinn í heild sinni fái ráð- og svigrúm til að ræða tilfinningar sínar og þá staðreynd að líkamlegt og starfrænt ofbeldi virðist vera að færast í aukana og orðið samfélagsmein. Áherslan liggi nákvæmlega þar núna.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, sagði í samtali við mbl.is í gær að málið væri í höndum Hraunvallaskóla og barnaverndaryfirvalda og bætti við að taka þurfi hart á málum sem þessum og af mikilli ákveðni.
Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði sömuleiðis að það væri fyrst og fremst skólans að vinna áfram með málið. Það yrði ekki unnið áfram hjá lögreglunni að svo stöddu.
Barnavernd Hafnarfjarðar vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær og þess í stað var vísað á samskiptastjóra bæjarins. Fram kom í tilkynningu að bærinn tjáir sig ekki sérstaklega um einstaka mál heldur almennt um ferli og viðbrögð sveitarfélagsins þegar alvarleg mál koma upp.
Ef þú upplifir vanlíðan eða sjálfsvíghugsanir eða hefur áhyggjur af einhverjum í kringum þig getur þú leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (opið allan sólarhringinn), Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.