Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir nýtt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarsson dómsmálaráðherra. Hún vill hætta að moka fólki úr landi og verja fjármunum í húsnæðisuppbyggingu og uppbyggingu innviða.
Arndís Anna segir forsendur frumvarpsins vera þær sömu og áður en þetta er í fimmta sinn sem reynt verður að koma slíku frumvarpi í gegn. Hún segir að þrátt fyrir að hægt væri að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu þá hafi það ekkert með þær áskoranir að gera sem við stöndum frammi fyrir.
„Það eru allt aðrir hlutir sem við teljum vera líklegri til þess að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir en þeir sem fram koma í frumvarpinu. Við sýndum það með móttöku þúsunda manna frá Úkraínu að þá þarf ekki að breyta neinum lögum til þess að auka skilvirkni. Við komum með móttökumiðstöð þar sem fólkið fer úr einu herbergi í annað og fá nauðsynlega þjónustu. Þar fer fram læknisskoðun, fólkið fær kennitölu og atvinnuleyfi og getur orðið hluti af samfélaginu. Ef við viljum auka skilvirkni í kerfinu þá þarf engar lagabreytingar til,“ segir Arndís Anna.
Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi undanfarinn áratug. Til marks um þessa fjölgun sóttu árið 2016 1.132 einstaklingar um alþjóðlega vernd hér á landi en árið áður 354 einstaklingar. Þá var meirihluti umsækjenda árið 2016 ríkisborgarar Makedóníu (um 41%) og Albaníu (um 20%) sem hafa verið skilgreind sem örugg upprunaríki.
Arndís Anna telur að hætta eigi að moka fólki úr landi og nýta fjármuni frekar í uppbyggingu: „Það liggur ekkert á því að koma með frumvarp þar sem það er ekkert sem þarf að breyta í lögum til þess að við getum ráðið við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ef við værum að eyða öllum þessum milljörðum sem verið er að nota í að moka fólki úr landi sem misheppnast í flestum tilfellum og verja þeim í húsnæðisuppbyggingu og uppbyggingu innviða þá værum við ekki með neitt vandamál hérna,“ segir Arndís Anna.
Í síðasta mánuði sagði Jón að staðan um þessar mundir væri mjög erfið þegar kæmi að innflytjendamálum og flóttafólki og vonaðist til þess að koma útlendingafrumvarpinu í gegn. Arndís Anna er á andverðum meiði og ætlar að sýna fram á tilgangsleysi frumvarpsins.
Aðspurð um hvort hún telji framvarpið muni fara í gegn segir Arndís: „Nei ég hef enga trú á því að þetta frumvarp fari í gegn þar sem það er tilgangslaust og ég mun sýna fram á það. Það er bara verið að brjóta á flóttafólki og skerða réttindi þeirra algjörlega að þarfalausu.“