Hörmuleg nýting úti á landi á veturna

Skarphéðinn telur tækifæri felast í fjölgun ferðamanna á öðrum ársfjórðungum …
Skarphéðinn telur tækifæri felast í fjölgun ferðamanna á öðrum ársfjórðungum en þeim þriðja. mbl.is/Hákon

Skarp­héðinn Stein­ars­son, frá­far­andi ferðamála­stjóri, telur tækifæri felast í fjölgun ferðamanna og bæta þar með nýtinguna á öðrum ársfjóðungum en þeim þriðja hérlendis. Hann telur nýtinguna úti á landi vera hörmulega á veturna en að þar liggi mikil tækifæri. 

Ferðamála­stofa spáir mikilli aukningu næstu árin í fjölda ferðamanna og segir að á yf­ir­stand­andi ári muni fjöldi ferðamanna vera um 1,7 millj­ón­ir. Þeim muni fjölga jafnt og þétt upp í tæp­lega þrjár millj­ón­ir árið 2025 og gistinóttum mun fjölga um 50%.

Fullseld í júlí og ágúst

 „Ég held að þó við séum fullseld í júlí og ágúst þá eru talsverð tækifæri í fjölgun ferðamanna og bæta þannig nýtinguna á öðrum árstímum. Okkur hefur gengið betur heldur en flestum öðrum þjóðum að minnka árstíðasveifluna en hún er tiltölulega lítil hér á landi samanborið við önnur lönd. Við höfum sýnt í ferðaþjónustunni hvað aðrir árstímar eru góðir hér á landi,“ segir Skarphéðinn.

Hörmuleg nýting úti um allt land á veturna

Aðspurður um hvort innviðir eins og hótel og gistiheimili séu í stakk búin að taka við þessari miklu aukningu í fjölda ferðamanna segir Skarphéðinn nýtingu geta verið miklu betri úti á landi.

„Úti um allt land á öðrum ársfjórðngum en þeim þriðja erum við með hörmulega nýtingu. Með því að bæta þá nýtingu getum við tekið á móti miklu fleiri ferðamönnum. Það styrkir ferðaþjónustu á landsbyggðinni til muna en þar er víða lokað yfir vetrartímann vegna lítillar aðsóknar.“

Skarphéðinn Berg Steinarsson, fráfarandi ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, fráfarandi ferðamálastjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Tíminn nýttur vel í faraldrinum við uppbyggingu innviða

Undanfarin ár hefur verið farið í fjölda verkefna er snúa að uppbyggingu innviða í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Þá telur Skarphéðinn ferðaþjónustuna hafa staðið sig gríðarlega vel í uppbyggingu á göngustígum, bílastæðum og öðrum innviðum á landsbyggðinni.

„Á undanförnu árum hefur verið farið í mörg öflug og vel gerð verkefni á vegum einkaaðila, sveitarfélaga og þjóðgarðanna. Við erum í miklu betri stöðu en áður og var tíminn vel nýttur í kórónuveirufaraldrinum. Þegar ferðamenn fóru að koma á öðrum tímum en yfir hásumarið krafðist það öðruvísi uppbyggingar sem þarf stöðugt að tryggja að sé til staðar og þarfnast stöðugs viðhalds,“ segir Skarphéðinn.

Helmingur vinnuafls erlent

Skarphéðinn telur tækifæri felast í því að erlent starfsfólk sem er hérna yfir hásumarið setjist hér að og vinni allt árið um kring. Aðspurður um hvort hægt væri að mann þessi störf með innlendu vinnuafli segir Skarphéðinn:

„Við náum aldrei að manna þetta nema með öflugum liðsauka erlendis frá eins og við höfum haft undanfarið. Um 25.000 manns starfa á hótelum, gistiheimilum og veitingastöðum hérlendis yfir hásumarið og er um það bil helmingurinn erlent vinnuafl. Ég vona að þetta fólk sjái tækifæri til þess að setjast hér og vinni allt árið í ferðaþjónustu. Ef við förum þá leið þá höfum við fleiri tækifæri til að skapa heilsársstörf og hættum að þurfa að reiða okkur á tímabundið vinnuafl."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert