ASÍ styður að gerð verði úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað en telur jafnframt þingsályktunartillögu þess efnis of takmarkaða.
Í umsögn um tillögu til fjarvinnustefnu er bent á að vegna COVID-19 faraldursins hafi fjarvinna aukist mikið, þ.m.t. þvinguð fjarvinna. Þá hefur fjarvinnan sums staðar leitt til aukinnar gervitöku sem felst í því að launafólk er gert að verktökum í störfum sem það í reynd vinnur sem launafólk í þjónustu atvinnurekanda, sem um leið sviptir það mikilvægum félagslegum-, kjarasamningsbundnum og lögbundnum réttindum.
Er ljóst að fjarvinna getur falið í sér verulegt rekstrarhagræði sem hingað til hefur ekki verið skipt milli launafólks og atvinnurekenda auk þess sem fjarvinna getur stuðlað að betra samræmi vinnu og einkalífs, segir í umsögninni.
Fjarvinna getur þó jafnframt haft mikil og neikvæð áhrif á fjölskyldu- og einkalíf launafólks þar sem skil milli vinnu og einkalífs verða óskýr. Minnst er í umsögninni á rannsókn á vegum Eurofound og ILO sem sýnir fram á að fjarvinnustarfsmenn vinna lengur og meira en aðrir og aðrar rannsóknir sem fjalla um svokallað „techno-stress“ sem er víst sívaxandi vandamál.