Ríkið leigir húsnæði án vitneskju sveitarfélaga

Kumbaravogur er fyrrum dvalar- og hjúkrunarheimili á Stokkseyri.
Kumbaravogur er fyrrum dvalar- og hjúkrunarheimili á Stokkseyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Íslenska ríkið hefur tekið Kumbaravog á Stokkseyri til leigu fyrir móttöku hælisleitenda sem eiga umsókn um alþjóðlega vernd, en sveitarfélagið Árborg segir staðsetninguna óheppilega.

Frá þessu greinir sunnlenska.is þar sem fram kemur að þetta sé gert án vitneskju sveitarfélagsins. Kumbaravogur er fyrrum dvalar- og hjúkrunarheimili austast í þorpinu á Stokkseyri og samkvæmt heimildum sunnlenska.is verður þar pláss fyrir 54 hælisleitendur.

„Sveitarfélagið hefur enga aðkomu að móttökunni á Kumbaravogi. Hún er alfarið í umsjón ráðuneytisins. Það er hins vegar ljóst að þessi hópur mun þurfa á þjónustu að halda, til dæmis varðandi verslun og heilsugæslu og því teljum við staðsetninguna á Kumbaravogi ekki heppilega,“ er haft eftir Fjólu St. Kristinsdóttur bæjarstjóra.

Telur bæjarráð að sveitarfélagið geti útvíkkað gildandi samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um móttöku flóttafólks og tekið á móti allt að 75 einstaklingum.

Leigt húsnæði í Eyjum án samráðs við bæjaryfirvöld

Þá hefur ríkið ákveðið að leigja húsnæði fyrir flóttafólk í Vestmannaeyjum og segir bæjarráð Vestmannaeyja ríkið hafa tekið ákvörðunina einhliða án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld.

Bæjarráð segir það óeðlilegt að ríkið hafi ekki haft samráð við bæjaryfirvöld á staðnum, sem þó eiga að veita flóttafólki nauðsynlega þjónustu, að því er eyjar.net greinir frá.

Í bókun bæjarráðs segir að með þessum framgangi sé sveitarfélögum gert mun erfiðara fyrir að sinna nauðsynlegri og faglegri þjónustu.

Telja bæjaryfirvöld töluvert hafa skort upp á hjá ríkinu að eiga samráð við sveitarfélög um margt er varðar samræmda móttöku flóttafólks, svo sem fjölda einstaklinga, samsetningu og þjóðerni með hliðsjón af tungumálaþörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert