Jaðarkenningar í miðju umræðunnar

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Þeir sem telja hópa illvirkja standa á bak við margt sem gerist í nútímasamfélagi gætu átt erindi á fyrirlestur Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og rithöfundar, á föstudaginn á ráðstefnunni Þjóðarspegli XXII í Háskóla Íslands. Eiríkur hefur varið talsverðum tíma í að skoða áhrif samsæriskenninga á stjórnmál og tengsl þeirra við popúlisma, þjóðernishyggju og upplýsingaóreiðu meðal annars.

„Við höfum séð verulega aukningu undanfarin ár á dreifingu og viðtekningu samsæriskenninga í allri þjóðmálaumræðu og í fyrirlestrinum velti ég upp áhrifum þriggja svona yfirsamsæriskenninga sem hafa mikið vægi í mismunandi heimshlutum.“

Breyta Evrópu í íslamskt samfélag

Eiríkur segir að í Evrópu sé Eurabia samsæriskenningin, sem t.d. fjöldamorðinginn Anders Breivik aðhylltist, og hefur verið haldið á lofti, af t.d. Marine Le Pen í Frakklandi og fleirum, hafi haft mikil áhrif á stjórnmálaumræðu í álfunni. „Kenningin gengur út á það að við séum ekki aðeins að verða vitni að einhvers konar breytingu á samfélaginu vegna streymis fólks til Evrópu frá Miðausturlöndum, heldur standi illvirkjar beinlínis að baki þessum fólksflutningum vísvitandi í þeim tilgangi að afgera kristna arfleifð Evrópu oft í samkrulli við svikara á Vesturlöndum sem þeir kenna gjarnan við menningarmarxisma. Fólksflutningar séu semsagt ekki vegna krísu og aðstæðna heldur standi á bak við þróunina illvirkjar sem hafi það markmið að breyta Evrópu í íslamskt samfélag.“

Eiríkur segir þessa kenningu hafa haft mikil áhrif. „Oft láta stjórnmálamenn sér nægja að daðra við samsæriskenningar af þessum toga fremur en að lýsa þeim hreint út,“ segir hann og bætir við að þær hafi líka mikil áhrif á þessu svokallaða gráa svæði þar sem aðeins er vísað óbeint til þeirra í pólitískri umræðu – fyrirbæri sem kennt er við hundablístur.

David Reinert skreyttur stóru Q merki hreyfingarinnar QAnon, í líki …
David Reinert skreyttur stóru Q merki hreyfingarinnar QAnon, í líki bandaríska fánans, að bíða eftir að komast á samkomu hjá Donald Trump árið 2018. AFP/Rick Loomis

 Djúpríkið stjórnar öllu vestanhafs

„Samsæriskenningin um djúpríkið er áhrifamesta kenningin í Bandaríkjunum í okkar tíð og Donald Trump hélt þeirri samsæriskenningu mjög ákaft á lofti. Hún gengur út á það að illvirkjar starfi saman neðanjarðar í bandarísku stjórnkerfi og stýri eftir eigin höfði öllum stjórnvöldum í landinu og að stjórnmálamenn í landinu séu aðeins strengjabrúður þeirra. Þá eru þessir illvirkjar ekkert endilega einhverjir embættismenn, heldur einnig flugumenn sem halda í spottana. Þessi kenningin var ráðandi í því að fólk réðist inn í þinghúsið 6. janúar 2021, svo dæmi sé tekið.“ Eiríkur segir að hreyfingar eins og QAnon hafi að miklu leyti spunnist upp í kringum þessa samsæriskenningu og stuðlað að mikilli útbreiðslu þeirra innan Bandaríkjanna.

Sprengjuregn yfir Pétursborg

Andvesturlandakenningar í Rússlandi hafa lengi verið útbreiddar í landinu. Vladimír Pútín hefur haldið þeim mikið á lofti að sögn Eiríks. „Samsæriskenningin gengur út á það að Vesturlönd hafi árum saman setið um Rússland og að innrás Vesturlanda inn í Rússland sé yfirvofandi. Þar sem kenningin hefur gengið lengst er sagt að herskip séu komin inn í Eystrasalt og það sé bara tímaspursmál hvenær sprengjum fari að rigna yfir Pétursborg. Þessi kenning hefur verið miklu útbreiddari og viðteknari í Rússlandi en Vesturlandabúar hafa nokkurn tíma gert sér grein fyrir,“ segir Eiríkur og bætir við að samkvæmt kenningunni séu Vesturlönd siðspillt upplausnarþjóðfélög sem búi við algjöra óstjórn. Hann segir kenninguna hafa verið notaða sem réttlætingu fyrir innrásinni í Úkraínu.

Andvesturlandasamsæriskenningar hafa lifað góðu lífi í Rússlandi og segir Eiríkur …
Andvesturlandasamsæriskenningar hafa lifað góðu lífi í Rússlandi og segir Eiríkur þær að hluta hafa orðið Vladimír Pútín orðræðuvopn til að nálgast markmið sitt um að ná fyrri svæðum gömlu Sovétríkjanna til baka, eins og í innrásinni í Úkraínu. AFP/Sergei Bobylyov

Vopnvæðing samsæriskenninganna

Eiríkur segir það mjög áhugavert að skoða hvernig stjórnmálamenn nýta sér samsæriskenningar af þessum toga í stjórnmálabaráttu sinni. Hann kallar það vopnvæðingu samsæriskenninga. Hann segir niðurstöðuna þá að samsæriskenningar, eins og þessar þrjár, séu í auknum mæli hagnýttar af stjórnmálamönnum og notaðar sem vopn í stjórnmálabaráttu sem magni upp tiltrú og dreifingu kenninganna.

Fjölmiðlar eins og margfaldarar 

„Fjölmiðlar virka núna gjarnan eins og margfaldarar í því að dreifa þessum kenningum og koma þeim áfram. Áður lifðu svona samsæriskenningar meira á jaðrinum og var ekki haldið uppi í siðaðri stjórnmálaumræðu, eða af stjórnmálamönnum sem voru taldir tækir í opinbera umræðu. En nú er staðan sú að popúlískir stjórnmálamenn, og stundum aðrir líka, taka upp samsæriskenningar sem áður voru á jaðrinum og flytja þær áfram með tilstilli fjölmiðla. Það býr svolítið til orðræðuna í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert