Miða við 5-600 flóttamenn í nóvember

Gylfi Þór (t.v.) og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, …
Gylfi Þór (t.v.) og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við opnun móttökumiðstöðvar umsækjenda um alþjóðlega vernd í vor. mbl.is/Árni Sæberg

„Sá sem lengst hefur þurft að dvelja í Borgartúninu þurfti að vera þar í þrjár nætur,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri vegna komu flóttafólks, spurður út í gang mála í fjöldahjálparstöð Rauða krossins fyrir flóttamenn sem staðsett er í Borgartúni.

„Það þýðir ekki að sú staða gæti ekki komið upp að einhver þyrfti að dvelja þar lengur en fram til þessa eru þrjár nætur lengsti tíminn,“ heldur Gylfi áfram.

Hann segir nú keppst við að útvega húsnæði handa því fólki sem streymi til landsins vegna neyðarástandsins í Úkraínu. „Við erum í því að útvega skammtímahúsnæði. Þarna verður oft misskilningur og fólk heldur að við séum í því að útvega húsnæði sem fólk muni búa í til frambúðar. Ef við tökum til dæmis Úkraínubúa þá búa þeir á vegum okkar í átta vikur. Eftir það þarf fólk að útvega sér húsnæði sjálft eða fá aðstoð sveitarfélaganna til þess,“ útskýrir Gylfi.

Róðurinn þyngst til muna

Tekur hann sérstaklega fram að þótt Rauði krossinn reki fjöldahjálparstöðina hafi hann ekkert að gera með átta vikna tímabilið sem svo tekur við, þar sé þjónustuteymi Vinnumálastofnunar á ferð.

„Aðrir en Úkraínubúar eru auðvitað lengur í skammtímahúsnæðinu á meðan mál þeirra eru að velkjast um í kerfinu, en eftir að fólk fær verndina hefur það átta vikur til að útvega sér húsnæði og eftir það fara allir út á leigumarkað,“ segir hann og bætir því við að róðurinn hafi þyngst til muna síðustu vikur.

„Bara þeir sem hafa komið núna í október eru 400, þetta er gífurlegur fjöldi en þetta er ekkert ómögulegt, eins og ég sagði nú einhvern tímann við Morgunblaðið, það er allt hægt en það ómögulega tekur bara lengri tíma,“ segir Gylfi.

Hann reiknar jafnvel með fleirum í nóvember, miðað sé við að þá komi á bilinu fimm til sex hundruð flóttamenn til landsins. „Við þurfum alltaf að vera undir það búin að geta hýst fleiri en færri, annars endar fólk á götunni og fer þá inn í neyðarúrræði sem ætluð eru heimilislausum og væru þá að taka rými af þeim,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert