Á miðvikudaginn féll dómur í Héraðsdómi Suðurlands í máli Andrésar Þorsteins Sigurðssonar sem stefnt hafði Vestmannaeyjabæ og Vestmannaeyjahöfn og tapaði Andrés í málinu gegn bænum en í máli hans gegn Vestmannaeyjahöfn var talið að brotalöm hefði verið í ráðningarferli í starf hafnarstjóra, starfi sem Andrés sótti um en fékk ekki.
Andrés sótti um starf hafnarstjóra Vestmannaeyjahafnar sem auglýst var 2. febrúar 2020. Hann hafði starfað lengi við höfnina og meðal annars sinnt ýmsum skyldum sem falla undir störf hafnarstjóra. Sex umsækjendur voru um starfið og voru Andrés og Dóra Björk Gunnarsdóttir metin hæfust. Eftir viðtöl og mat var Dóra Björk ráðin í starfið og það gert kunnugt 17. mars 2021 af Vestmannaeyjabæ.
Andrés var ósáttur við gang mála og setti út á vægi þeirra hæfniþátta sem metin voru til starfsins og benti þar meðal annars á að menntun væri metin til 25% en reynsla af sjávarútvegi aðeins til 5%. Þann 7. júní 2012 krafði hann með fullþingi lögfræðings Vestmannaeyjabæ um bætur vegna ráðningarinnar upp á rúmar 15 milljónir. Þeirri kröfu var hafnað 21. júní sama ár.
Andrés sagði upp starfi sínu hjá Vestmannaeyjahöfn skriflega 30. júlí sama ár og sagði ástæðuna vera einelti sem hann byggi við af höndum bæjaryfirvalda og hefði steininn tekið úr þegar hann fékk ekki starf hafnarstjóra.
Í dómnum á miðvikudag er stefnandi ekki talinn sanna mál sitt varðandi einelti bæjaryfirvalda og tapar hann því máli. Hins vegar er talið að vinnubrögð Vestmannaeyjahafnar, sem fer með ráðningarvald í stöðu hafnarstjóra, hafi verið ámælisverð og leiða megi líkum að því að allt ráðningaferlið hafi dregið verulega úr möguleikum Andrésar að fá starfið.
Niðurstaða dómsins er sú að málskostnaður fellur niður milli Vestmannaeyjabæjar og stefnanda. Vestmannaeyjahöfn er gert að greiða Andrési 600 þúsund krónum með vöxtum frá 8. nóvember 2021til 8. desember 2021 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er Vestmannaeyjahöfn gert að greiða málskostnað upp á 3.606.920 krónur.