„Ég var kallaður útfararstjóri flokksins“

Logi Einarsson þakkaði flokkssystkinum sínum fyrir ár sín við stjórnvölinn …
Logi Einarsson þakkaði flokkssystkinum sínum fyrir ár sín við stjórnvölinn og hvatti þau eindregið til að styðja við bakið á nýrri flokksforystu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var kallaður útfararstjóri flokksins á sínum tíma en enginn spáir flokknum dauða nú, heldur snýst gagnrýnin nú fremur um að við séum ekki enn stærri,“ sagði Logi Einarsson, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, í setningarræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar.

Logi hefur gegnt formennsku í flokknum síðan haustið 2016 og sagði að nú, er hann hyrfi úr sæti sínu, liði honum svipað og við lok menntaskóla. „Fékk örugglega slaka einkunn í stöku áfanga  og var stundum kallaður inn á beinið en lærði samt heilmargt, sem hefur nýst mér í framhaldinu. En það sem stóð upp úr og kenndi mér kannski allra mest var félagsskapurinn, maður minn!“ sagði Logi.

Hann kveðst áfram munu berjast af öllum kröftum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar auk þess sem hann komi til með að styðja nýja forystu með ráðum og dáð. Forysta flokksins þurfi öflugt aðhald en einnig öflugan stuðning almennra flokksmanna sagði Logi og hvatti viðstadda til að fylkja sér að baki þeirra sem treyst yrði til að leiða flokkinn.

Mannréttindamálin alltaf fylgt samfélagi manna

Formaðurinn fráfarandi sagði ýmsa eiga það til að hæðast að flokkum á borð við Samfylkinguna sem meðal annars hafi gert loftslags- og mannréttindamálum hátt undir höfði og kallað ímyndarstjórnmál.

„Ekkert er fjær sanni. Þetta eru ekki jaðarmál eða afmarkaðir málaflokkar, heldur verða að vera meginþráðurinn í öllum hinum pólitíska vefnaði,“ sagði Logi. „Loftslagsmálin snúast um bráðavanda sem þarf að bregðast við með sameiginlegu átaki alls mannkyns, og verður að móta allan hugsunarhátt til ókominnar framtíðar,“ hélt hann áfram.

Mannréttindamálin væru hins vegar barátta sem alltaf hefði fylgt samfélagi manna og lyki aldrei þótt hún tæki vissulega stöðugt á sig nýjar birtingarmyndir.

„Loftslagsmálin snúast um bráðavanda sem þarf að bregðast við með …
„Loftslagsmálin snúast um bráðavanda sem þarf að bregðast við með sameiginlegu átaki alls mannkyns,“ sagði formaðurinn fráfarandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við sem aðhyllumst jafnaðarstefnu viljum að einstaklingar geti notið sín og hæfileika sinna í atvinnulífinu, í skapandi greinum, í íþróttum eða á öðrum sambærilegum vettvangi. En við lítum ekki á ríkið, opinberar stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé og í almannaþágu, sem ógn við framtak einstaklinganna,“ sagði Logi.

Öflug og samhent verkalýðshreyfing grunnforsenda

Hlutverk hins opinbera væri að halda uppi þjónustustigi við almenning og þekkingarstigi sem nýttist í almannaþágu en ætti ekki bara að vera auðsuppspretta á markaði. Vel hafi sést í heimsfaraldrinum hvaða hlutverki ríkið þyrfti að gegna þegar áföll ríða yfir og markaðsbrestur verður. Hugmyndir um hinn alvitra markað hafi aldrei staðist próf veruleikans.

„En við ætlumst heldur ekki til þess að öll framleiðslutæki og allt atvinnulíf sé á hendi hins opinbera. Þarna þarf jafnvægi að ríkja. Við viljum ekki bara sjá öflugt atvinnulíf sem getur haldið uppi góðum lífskjörum og séð fólki fyrir gefandi og skemmtilegri vinnu. Heldur teljum við líka að grundvallarforsenda þess að svo megi verða sé öflug og samhent verkalýðshreyfing sem stendur vörð um hagsmuni launafólks, hvort sem það birtist í launaumslaginu, lífeyrisréttindunum, lánakjörum, húsnæði, endurmenntun, aðbúnaði á vinnustað eða vöruverðinu. Með öðrum orðum lífskjörin í víðum skilningi þess orðs,“ hélt Logi áfram.

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hlýðir á ræðu Loga á landsfundinum.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hlýðir á ræðu Loga á landsfundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar stæði Samfylkingin með íslensku launafólki. Þetta sæist til dæmis á þeim þingmálum sem flokkurinn hefði lagt fram á yfirstandandi þingi og mörg undanfarin þing. Samfylkingin hefði lagt fram mál um að íslenska þjóðin fengi sjálf að velja um hvort haldið skyldi áfram viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu sem hvort tveggja væri risastórt kjaramál og mál sem snerist um stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna á viðsjárverðum tímum.

Hugsjónirnar sameiningarafl

„Við höfum lagt fram tillögur um margháttaðar mótvægisaðgerðir til að verja tekjulága hópa fyrir verðbólgu, við höfum lagt fram mál um réttlæti í sjávarútvegi, um bætt kjör barnafjölskyldna, lífskjör aldraðra og öryrkja, um raforkuöryggi og greiðar samgöngur, heilbrigðisþjónustu og réttlát græn umskipti“ sagði Logi.

Kvað hann Samfylkinguna hafa verið óþreytandi við að leggja fram mál sem sýndu fram á hvernig hún ætlaði að stjórna landinu þegar flokkurinn tæki við lyklunum í Stjórnarráðinu.

„Á meðan hafa komið fram frá ríkisstjórninni mál um að setja upp lokaðar búðir fyrir hælisleitendur og hætta svo við það, koma til móts við sveitafélög vegna kostnaðar við málefni fatlaðra  og hætta svo við það. Þannig má telja áfram og áfram.“

Logi kvað brotthvarf sitt úr formannsstólnum minna á þann tíma …
Logi kvað brotthvarf sitt úr formannsstólnum minna á þann tíma er hann lauk menntaskólanámi, hann hefði stundum fengið slakar einkunnir og verið tekinn á teppið en allt blessast að lokum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sameiningarafl Samfylkingarinnar væru hugsjónir. „Við höfum að sjálfsögðu ólíkar hugmyndir um það hvernig best verði starfað í anda þeirra hugsjóna og við tökumst á um það. En við eigum alltaf að gera það af virðingu og vináttu. Og gleymum því ekki að við störfum í flokki sem hefur stefnu sem er stærri en hvert og eitt okkar, var til á undan okkur öllum og mun lifa okkur öll,“ sagði Logi.

Breidd í röðum flokksins

Þetta hafi dregið hann að Samfylkingunni á sínum tíma, hugsjónirnar, en einnig jarðsambandið sem hugsjónirnar hefðu hjá flokksmönnum. Þá ræddi hann fjölbreytnina í röðum félaga flokksins.

„Hér starfar verkafólk við hlið kennara, heilbrigðisstarfsfólk við hlið verkfræðinga, sjómenn við hlið forritara, ungt fólk við hlið roskinna, háskólaborgarar, atvinnurekendur, listamenn, iðnaðarmenn og svona er hægt að telja endalaust upp, því að við endurspeglum íslenskt samfélag og erum þverskurður af íslensku samfélagi, og við eigum okkur djúpar rætur í þjóðlífinu,“ sagði formaðurinn fráfarandi.

Þegar hann tók við formennsku hafi sjálfsmynd flokksins verið í molum, ágreiningur hefði tætt flokkinn í sundur og fjárhagurinn verið mjög erfiður að loknum kosningum. En með sameiginlegu átaki hafi tekist að sætta sjónarmið, finna taktinn og rétta úr kútnum.

„Þá kom svo sannarlega í ljós að við erum raunveruleg fjöldahreyfing full af hæfileikaríku og hjartahlýju fólki, hvort sem það er í grasrót, hópi starfsmanna eða kjörinna fulltrúa. Öllu þessu fólki langar mig að þakka sérstaklega fyrir samstarfið og hafa trú á að við gætum þetta. Og þetta hafa sannarlega verið viðburðarík sex ár,“ sagði Logi.

Takk fyrir mig

Ný forysta tæki nú við stjórnartaumunum og þar sem Samfylkingin ætti að vera kjölfestuflokkur, valkostur þeirra sem vildu ný vinnubrögð og nýja sýn, væri bæði eðlilegt og skynsamlegt að flokkurinn kysi sér nú nýja forystu sem tæki við keflinu, „svo að við getum komið flokknum okkar á þann stað þar sem við viljum sjá hann, í ríkisstjórn“.

Samheldnin er einn meginþátta jafnaðarstefnunnar.
Samheldnin er einn meginþátta jafnaðarstefnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sem fyrr segir kvaðst Logi áfram ætla að berjast af öllum kröftum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og lýsti hann stuðningi sínum við nýja flokksforystu. Klykkti formaðurinn fráfarandi út með svofelldum orðum:

„[E]itt af því sem ég hef lært af formannstíð minni er að forysta flokksins þarf öflugt aðhald en hún þarf líka öflugan stuðning almennra flokksmanna. Við skulum því, kæru vinir, fylkja okkur öll á bak við þau sem við treystum til þess að leiða flokkinn.

Og að lokum segi ég: Takk kæru félagar, takk fyrir mig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert