Breyta nafni Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir, nýr formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, nýr formaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Samfylkingin

Landsfundur Samfylkingarinnar samþykkti rétt í þessu breytingu á nafni flokksins en hann mun framvegis heita Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands. 

Áður bar flokkurinn nafnið Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, svo ekki er hægt að segja að um mikla breytingu sé að ræða. 

Arnór Heiðar Benónýsson, forseti Ungs jafnaðarfólks, og forveri hans, Ragna Sigurðardóttir, báru upp tillöguna, sem var samþykkt. Aðrar tillögur að breytingu á nafni voru dregnar til baka þar sem sátt náðist um þessa tillögu.

Þá var einnig samþykkt á fundinum tillaga verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar um að merki flokksins yrði rós en það er einig alþjóðlegt merki jafnaðarfólks.

Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður flokksins, fagnar þessum breytingum: „Ég er ánægð með þessar ákvarðanir landsfundar. Með því að taka rósina upp sem merki styrkjum við ímynd okkar sem jafnaðarflokks. Og rósin fer vel saman við áherslur mínar um að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarstefnunnar,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert