„Fyrir rúmum 20 árum var fyrst byrjað að velta upp þessari hugmynd, að stofna eigið félag, þannig að þetta er ekkert nýtt af nálinni,“ segir Sverrir Fannberg, varaformaður undirbúningshóps hafnarverkamanna um að kljúfa sig út úr stéttarfélaginu Eflingu og stofna eigið félag, í samtali við mbl.is.
Líkt og mbl.is greindi fyrst frá funduðu hafnarverkamenn um málið í húsi Þjóðminjasafnsins í dag.
Spurður um hvað hafi komið fram á fundinum segir Sverrir;
„Við vorum að sýna fram á ákveðna hluti sem eru í boði, sem við getum farið í. Það er mikill hugur í fólki að skoða þetta. Það eru ákveðnir margir búnir skrifa úrsögn og skrá sig í nýtt félag, þó svo að við séum ekki búnir að skila því inn en það verður ekki gert fyrr en við sjáum hvað það er stór hópur sem að vill þetta.“
Sverrir segir þá sem standa að undirbúningshópnum ekki vera ósátta með stjórn Eflingar.
„Við erum ekki í neinni óvild út í Sólveigu eða Eflingu. Við óskum þeim alls hins besta í sínum samningsumleitunum sem eru nú að fara fram.“
Segir hann málið einfaldlega snúast um að hafnarverkamenn vilji fá samningsumboðið til sín.
„Við erum ekki svo stór hópur. Síðast voru kjarasamningar felldir af fólkinu niðri á bryggju. Út af því að það er svo stór hópur sem er með þegar verið er að kjósa var hann samt samþykktur. Okkar pæling er að fá í raun heimildina til okkar um að semja um okkar mál sjálfir og kjósa um okkar samning.“