Kristrún Frostadóttir kynnti fjögur kjarnamál sem hún ætlar setja á oddinn sem nýr formaður Samfylkingarinnar í sinni fyrstu stefnuræðu á landsfundi flokksins í dag.
„Breytingarnar byrja strax í dag. Þær byrja hér og nú,“ sagði Kristrún í ræðu sinni. Bætti hún við að landsfundurinn muni marka tímamót í sögu flokksins sem og í sögu þjóðarinnar.
Kristrún þakkaði fráfarandi stjórn flokksins fyrir þeirra störf. Þakkaði hún Loga Einarssyni, fráfarandi formanni, sérstaklega fyrir að hafa tekið vel á móti sér og fyrir góð störf á einum erfiðasta tíma flokksins.
Þrátt fyrir þau góðu störf sem fráfarandi stjórn á að hafa unnið sagði Kristrún stöðu flokksins í landsmálum óásættanlega. Benti hún á flokkurinn hafi nú tapað fernum kosningum í röð og sagði síðustu alþingiskosningar hafa verið vonbrigði.
„Vonleysi sigraði í síðustu kosningum,“ sagði Kristrún.
Telur Kristrún flokkinn þurfa horfa inn á við og spyrja sig hvað hann hafi gert vitlaust. Segir hún það svik við flokkinn og fólkið í landinu að halda áfram á sömu braut. Því þurfi að ráðast í breytingar, þrátt fyrir að líklega sé auðveldast að breyta engu.
Nefndi hún fjögur mál sem hún mun leggja áherslu á;
Þá ávarpaði Kristrún það sérstaklega að flokkurinn megi aldrei festast í fortíðinni. Sagði hún flokkinn ekki eiga reyna klára kosningamál sem ekki hafi náðst að klára þegar hann var síðast í ríkisstjórn. Nefndi hún sem dæmi aðild að Evrópusambandinu og nýja stjórnarskrá.
Sagðist hún sjálf vera mikill Evrópusinni en þrátt fyrir það myndi hún ekki selja fólkinu í landinu að það væri töfralausn þar það sé það ekki. Þá sagði hún nauðsynlegt að taka upp aðra nálgun þegar kemur að stjórnarskrármálinu. Ljóst væri að nálgunin um að fá alveg nýja stjórnarskrá væri ekki að bera árangur, því þurfi að fara í málamiðlanir.
Þá sagðist Kristrún ekki vera byltingasinni, hún hefði ekki trú á töfralausnum. Bætti hún við að í grunninn væru jafnaðarmenn ekki byltingasinnar og það myndi skila meiri árangri fyrir venjulegt fólk í landinu að vinna að málum í jafnvægi og breiðri samstöðu frekar en að bíða eftir byltingunni.