Bjarni bjartsýnn en „í miðju verki“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hlakkar til að mæta til …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hlakkar til að mæta til landsfundarins á laugardaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég átti ekki von á öðru en að þessi yfirlýsing kæmi fram. Ég átti von á að hún kæmi fram fyrr. En hún breytir engu um mín áform um að gefa kost á mér til þess að leiða flokkinn áfram,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, tilkynnti um hádegisbil um framboð gegn honum til formanns Sjálfstæðisflokksins en landsfundur flokksins fer fram á laugardaginn.

Guðlaugur og Bjarni sækjast eftir formannssæti en Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sækist áfram eftir varaformannssæti. Bjarni hefur gefið það út að hann muni hætta í stjórnmálum ef hann nær ekki kjöri.

Aldrei tekið formannssætinu sem gefnu

„Við erum stór og lýðræðislegur flokkur. Við viljum endurnýja umboð forystunnar á landsfundi og þangað hef ég sótt mitt umboð ætíð og aldrei tekið því sem gefnu að fá þann heiður að leiða Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Bjarni, inntur eftir viðbrögðum við framboði Guðlaugs.

„Mér hefur fundist að við værum að skila gríðarlega góðum árangri í ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu. Stóraukinn kaupmáttur er til vitnis um það. Mjög sterk staða ríkissjóðs er til vitnis um það. Og við erum í miðju kafi við að fylgja eftir stjórnarsáttmála,“ segir Bjarni.

„Ekki við öðru að búast“

„Það eru ákveðnir óvissutímar í efnahagsmálum. Svo ég er í miðju verki og hlakka til að mæta til fundarins.“ 

Finnurðu fyrir stuðningi í kringum þig?

„Ég geri það. Ég finn fyrir öflugum stuðningi og hef alltaf gert. Það er ekki við öðru að búast en að oddvitinn í Reykjavík vilji láta reyna á fylgi sitt. Hann nýtur líka stuðnings. Við skulum sjá hvernig úr þessu spilast. Ég er bjartsýnn.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert