Inga Þóra Pálsdóttir
Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa báðir virkjað stuðningsfólk sitt sem hringir nú í flokksmenn sem eiga sæti á landsfundi flokksins og heyrir í þeim hljóðið.
Kosið verður um forystu flokksins á landsfundinum sem fer fram næstu helgi. Bjarni og Guðlaugur Þór eru báðir í framboði til formanns en Guðlaugur Þór tilkynnti um framboð sitt í dag. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð utanríkisráðherra er enn sem komið er ein í framboði til varaformanns.
Guðlaugur Þór hefur opnað kosningaskrifstofu á 3. hæð á Suðurlandsbraut 18, en þar var hann einnig með skrifstofu er hann atti kappi við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um fyrsta sætið í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar árið 2021.
Bjarni er ekki með opna kosningaskrifstofu líkt og Guðlaugur Þór en hefur þó opnað vinnustofu í Múlunum.