Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, sagði að það myndi koma sér á óvart ef ríkisstjórnarsamstarfið færi í uppnám ef hann yrði kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.
Ráðherrann var gestur í Silfrinu í morgun þar sem hann svaraði ýmsum spurningum varðandi hugsanlegt framboð sitt án þess þó að staðfesta ákvörðun sína.
Hann hefur boðað til fundar í dag í Valhöll klukkan 12.30 þar sem hann ætlar að gera grein fyrir ákvörðun sinni.
„Mér finnst vera hugur í sjálfstæðisfólki og fólk vill að við komum okkur á þann stað sem við vorum. Allir eru meðvitaðir um að það er stórt verkefni og margir þurfa að koma að. Það er ekkert einn sem gerir það,“ sagði Guðlaugur Þór í Silfrinu sem er sannfærður um að landsfundur flokksins um næstu helgi verið lyftistöng fyrir flokkinn.
Spurður hvort hann telji öruggt að hann fái meirihluta atkvæða, fari hann fram, kvaðst Guðlaugur Þór vera bjartsýnn á að ná góðum árangri.
Spurður hvort mögulegt framboð hans væri vegna persónulegs metnaðs eða ágreinings milli hans og Bjarna Benediktssonar, núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sagði Guðlaugur framboðið vera mjög stór ákvörðun. „Bæði persónulegra og annarra hluta,“ bætti hann svo við.
„Ég trúi því að við þurfum að gera betur þegar að kemur að því að nýta þennan kraft sem er í Sjálfstæðisflokknum og ég hef áhyggjur eins og aðrir að við séum ekki á réttri braut hvað það varðar.“