Kjartan Halldór Antonsson skrifar pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann deilir sögu eiginkonu sinnar, Eydísar Grétu Guðbrandsdóttur, sem fór í liðskiptaaðgerð í Danmörku árið 2019 og hefur verið óvinnufær síðan þá. Niðurstaða röntgenmyndatöku sem Eydís Gréta fór í stuttu eftir aðgerðina sýndi að liður hennar sæti rétt og allt væri eðlilegt. Síðar kom annað á daginn.
„Hún fer í aðgerðina 9.desember 2019 og á fjarfundasamtal við sjúkraþjálfara ellefu dögum síðar þegar hún er enn þá með saumana í hnénu. Hann var mjög ósáttur með hreyfigetuna þrátt fyrir að einungis ellefu dagar væru liðnir frá aðgerð, en hann hafði aldrei samband aftur, eftirfylgnin var engin. Hún kvartaði strax og fór til læknis en þá var verkjalyfjum hrúgað í hana og sagt við hana að hún væri bara óheppin. Í röntgenmyndatökunni sem hún fór í þremur mánuðum eftir aðgerð sést að liðurinn situr rétt en það er grátlegt að á þeirri mynd sést að liðurinn er of stór. Það hefði verið hægt að grípa inn í fyrir þremur árum,” segir Kjartan í samtali við mbl.is.
Eftir að þessi niðurstaða kom í ljós fór Eydís Gréta margoft til læknis en fékk þau svör að það gætu alltaf verið frávik og að hún væri því miður ein af þeim óheppnu. Það var síðan tveimur árum eftir aðgerð sem þau hjón áttuðu sig á því að Eydís Gréta hafði aldrei farið til sérfræðings eftir aðgerðina. Vildu þau taka af allan vafa og pöntuðu tíma á læknamiðstöðinni Klíníkinni.
Niðurstaða þeirrar rannsóknar sem Eydís Gréta gekkst undir hjá Klíníkinni sýndi að liður hennar stæði 6 mm út fyrir bein og væri alltof stór. Eydís Gréta fór þá á biðlista eftir aðgerð hjá Jónasi Franklín á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
„Henni var margsinnis sagt að hún væri ein af þeim óheppnu en fyrir rælni förum við til sérfræðings og þar koma í ljós þessi hrikalegu mistöku. Að það skuli ekki vera brugðist fyrr við og með öllum þessum andlegu og líkamlegu kvölum sem hafa byggst upp og fylgt okkur í þennan tíma. Þessi Facebook-færsla var í raun ákall hjá mér sem sandkorn í umræðuna til heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda. Það hafa margar svona sögur komið fram og þetta kannski virkar sem eitt gramm á þær vogarskálar að íslenska ríkið taki sig til og hjálpi fólki sem þarf að hjálpa,“ segir Kjartan.
Hjónin fengu svar frá Sjúkratryggingum Íslands þess efnis að þær gætu ekki borið ábyrgð á aðgerðum sem framkvæmdar væru erlendis.
„Við fengum svar frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem segir að íslenska ríkið geti ekki borið ábyrgð á aðgerðum sem framkvæmdar eru erlendis. Þeir borga ferðina, uppihald og allt saman og mér er sagt af lögfróðum mönnum að það standist enga skoðun að íslenska ríkið geti fríað sig ábyrgð en hins vegar er ótrúlegt að Sjúkratryggingar Íslands skuli gefa það svar,” segir Kjartan.
Kjartan segir að erfitt sé að horfa upp á lífsgæði konu sinnar og besta vinar skerðast eins og raun ber vitni þar sem mikill tími hefur verið tekinn af henni á besta aldri. Hann segist þó afar þakklátur fyrir stuðninginn sem þau hafa fundið fyrir.
„Konan mín var ofboðslega lífsglöð, orkumikil, stundaði mikla útivist, veiðar og þjálfun hunda. Þetta hefur hún ekki getað gert í þrjú og hálft ár og ef hún fer í aðgerð núna þá er árs endurhæfing því þetta er svo stór aðgerð núna.
Þetta er aðallega skrifað út af andlegum sársauka þar sem ég horfi á konuna mína kvíðna en hvorki hún né ég höfðum aldrei verið kvíðin fram að þessu. Þó ég sé að skrifa um okkur þá á þetta við svo alltof marga. Ég vil samt þakka fyrir stuðninginn en hann hefur verið ótrúlega mikill og frá fólki sem við þekkjum ekki neitt,“ segir Kjartan.