Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins til nítján ára, býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins.
Þetta tilkynnti Guðlaugur Þór rétt í þessu á fundi í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Guðlaugur Þór steig í pontu salurinn var yfirfullur og þröngt um fólk í öðrum sölum hússins.
Um fimmhundruð manns voru komin saman í Valhöll til að hlýða á Guðlaug Þór.
„Það á enginn stjórnmálamaður betri vini og stuðningsmenn en ég og ég er óendanlega þakklátur fyrir það,“ sagði Guðlaugur Þór.
Á fundinum lagði hann áherslu á að flokkurinn yrði að snúa vörn í sókn. „Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn, hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn.“
Sterkur orðrómur fór að láta á sér kræla í síðustu viku um að Guðlaugur Þór hygðist bjóða sig fram á móti sitjandi formanni, Bjarna Benediktssyni. Síðan þá hefur Guðlaugur Þór ekki viljað staðfesta fyrirhugað framboð – þar til nú – en gekkst við því að hann væri að íhuga framboð alvarlega og lægi undir feldi.
Nokkrir fundir stuðningsmanna hans hafa síðan verið haldnir og fjölmargar ábendingar borist um símtöl frá Guðlaugi Þór þar sem hann var sagður kanna stuðning við mögulegt framboð.
Bjarni Benediktsson hefur setið í formannsstól Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009, en þá kepptu hann og Kristján Þór Júlíusson um embættið.
Síðn hefur hann þrisvar hlotið mótframboð. Fyrst árið 2010 þegar Pétur Blöndal bauð sig fram gegn honum á landsfundi, svo árið 2011 á móti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og loks árið 2013 þegar Halldór Gunnarsson í Holti bauð sig fram gegn honum.
Síðan hefur Bjarni ekki fengið mótframboð en í öll skiptin sem hann hefur hlotið mótframboð var Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu.
Formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn á landsfundi flokksins um næstu helgi.
Kosningaskrifstofa Guðlaugs Þórs verður á Suðurlandsbraut 18 á 3. hæð.