„Ég held nú að það sé nokkuð augljóst að það var aðdragandi að þessu. Meðal annars birtist hann í því að það var komin fram umræða, sem Bjarni hafði gefið undir fótinn með, að það gæti komið til greina að skipta um það sem áður hafði verið áformað, að Jón Gunnarsson færi úr ríkisstjórn og hugsanlega yrði það einhver annar.“
Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is um framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til formanns Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur Þór tilkynnti formlega um framboð sitt í Valhöll í dag.
„Þá bárust böndin að Guðlaugi. Það er ekki hægt að líta á þetta framboð hans svona algjörlega úr samhengi við þá stöðu sem hann var kominn í. Ráðherrastóll hans var í hættu og hann ákveður að láta slag standa, mæta hörðu og skora formanninn á hólm, sem að mér er til efs að hann myndi hafa gert ef að þessi umræða um ríkisstjórnarstólinn hafi ekki farið af stað,“ bætir Eiríkur við.
Eiríkur segir að það myndi ekki koma á óvart ef að Guðlaugur Þór yrði látinn taka poka sinn nái hann ekki kjöri til formanns um helgina. Bjarni hefur gefið út að hann muni hætta í stjórnmálum nái hann ekki endurkjöri um helgina.
„Ég held að það sé frekar erfitt að sjá fyrir sér, hvernig sem þetta fer, að þeir muni báðir áfram sitja saman í ríkisstjórn eins og ekkert hafi í skorist. Mér finnst líklegt að annar þeirra víki úr stjórninni.“
Í ræðu sinni á framboðsfundinum í dag sagði Guðlaugur Þór ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins við Vinstri græna og Framsóknarflokkinn ekki vera í húfi næði hann kjöri. Eiríkur telur það rétt.
„Vissulega hefur það verið sagt að þessi ríkisstjórn hangi að stórum hluta saman á samstarfi formanna flokkanna, og einkum og sér í lagi samstarfs Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur. Fari Bjarni út breytist auðvitað sú dýnamík, það liggur í hlutarins eðli, en ég sé ekki alveg ástæðu fyrir því af hverju Guðlaugur gæti ekki náð samsvarandi samstarfi við hina formennina.“
Á framboðsfund Guðlaugs Þórs í dag mættu hátt í 500 manns þrátt fyrir að boðað hafi verið til hans með mjög skömmum fyrirvara. Eiríkur telur framsetningu fundarins hafa verið sterka.
„Mér fannst athyglisvert hvernig hann kynnti framboðið. Hann gerði það með öflugum hætti og þetta var sterk framsetning þar sem farið var aftur ofan í einhverja rót Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega fannst mér eftirtektarvert hvað hann talaði mikið um stétt.“
En í ræðu sinni hamraði Guðlaugur Þór mikið á gömlu slagorði flokksins, stétt með stétt.
„Þá stillir hann Bjarna auðvitað upp sem einhvers konar efristéttarmanni,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir þá Bjarna og Guðlaug Þór reka svipaða stjórnmálastefnu. Því sé áferðarmunur á þeirra pólitík, frekar en áherslumunur.
„Mér sýnist þetta frekar vera áferðarmunur frekar en áherslumunur. Þeir reka nokkuð áþekka stjórnmálastefnu þótt að það sé áhugavert hvernig Guðlaugur talar núna um flokkinn sem flokk allra stétta, það er aðeins annar tónn.“
„Við það að Guðlaugur tæki við sem formaður flokksins sé ég ekki einhverja grundvallarstefnubreytingu verða á flokknum fyrir vikið,“ bætir Eiríkur við.