Skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka er ekki að vænta í þessari viku. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi staðfesti þetta í samtali þeirra á milli.
Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Guðmundur Björgvin að vinna við skýrsluna væri á lokametrunum. Hann vildi þó ekki staðfesta hvort unnt væri að afhenda skýrsluna til forseta Alþingis fyrir helgi en þá fer landsfundur Sjálfstæðisflokksins fram. Þar munu Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, bjóða sig fram til embættis formanns.
Skýrslunnar hefur verið beðið um nokkur skeið, en upphafleg áætlun miðaðist við að skýrslan kæmi út fyrir lok júní en sú áætlun miðaðist við það að öll gögn lægju fyrir í málinu, en svo reyndist ekki vera.
Skýrsludrögin bárust fjármálaráðuneytinu fyrr í mánuðinum og vinnur Ríkisendurskoðun nú úr umsögnum sem bárust frá fjármálaráðuneytinu annars vegar og bankasýslunni hins vegar.
Í samtali við mbl.is segir Þórunn að nefndin hafi sýnt því skilning og biðlund.
„En auðvitað er okkur farið að lengja eftir skýrslunni,“ bætir hún þó við.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hafði ekki fengið það staðfest að skýrslan yrði ekki afhent í þessari viku þegar mbl.is náði tali af honum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa skoðun á því að afhending skýrslunnar hefði dregist á langinn.
Hann hafi einungis óskað eftir því að þinginu yrði gefinn smá fyrirvari áður en skýrslan yrði afhent svo hægt væri að gera ráðstafanir.