Hik á Bjarna um fund hans og Guðlaugs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra neitar því alfarið að hafa gert kröfu um nýtt hlutverk innan ríkisstjórnarinnar á fundum sínum með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, gegn því að falla frá framboði sínu til formanns. 

Fluttar voru fréttir í vikunni af því að Guðlaugur Þór og Bjarni funduðu í tvígang áður en Guðlaugur tilkynnti um formannsframboð sitt á sunnudaginn. Kosið verður um formann Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins um helgina. 

Inntur eftir því, hvort að hann sé sammála um að engar kröfur hafi verið gerðar á fundum þeirra, hikaði Bjarni aðeins við að svara, og velti vöngum. Hann sagði þó að lokum að hann kysi að fara ekki í smáatriði fundanna. „Ég held að það henti hvorugum okkar að fara út í smáatriði í samtali sem var okkar tveggja í milli,“ sagði Bjarni. 

Dagmál með Bjarna Benediktssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, ráðherrum og frambjóðendum til formanns Sjálfstæðisflokksins verður sýndur og aðgengilegur í opnu streymi á mbl.is á morgun. 

Þar eru framboð þeirra rædd ítarlega, áherslur og sýn þeirra á formannsembættið og stöðu flokksins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert