Kaldbakur, dótturfélag Samherja, hefur fest kaup á Landsbankahúsinu við Ráðhústorgið á Akureyri sem auglýst var til sölu fyrir um mánuði. Frá þessu er greint á vef Samherja, en þar kemur jafnframt fram að sjö tilboð hafi boðist og að tilboð Kaldbaks, upp á 685 milljónir, hafi verið hæsta boð.
Húsið er um 2.400 fermetrar að stærð og var tekið í notkun árið 1954. Fyrstu tillöguuppdrætti að húsinu gerði Guðjón Samúelsson en að honum látnum tók Bárður Ísleifsson við og gerði hann eftir það alla uppdrætti. Bárður gerði einnig teikningar að mögulegri viðbyggingu á austurhlið hússins sem ekki reis.
Í tilkynningunni er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Kaldbaks, að húsið sé sögulega í stóru hlutverki í hjarta miðbæjarins. „Kaldbakur vill leggja sitt af mörkum til að varðveita húsið og gæða það frekara lífi til framtíðar. Við erum vel meðvituð um upphaflega tillöguuppdrætti Guðjóns Samúelssonar sem sýna húsið bæði hærra og stærra. Við munum skoða þessi mál í framhaldinu, þannig að nýting hússins verði sem best og sómi þess og bæjarprýði verði sem mest.“
Þá segir hann það sannfæringu félagsins að Akureyri muni koma til með að vaxa og dafna á komandi árum og sem miðstöð búsetu, menningar og atvinnulífs á Norðurlandi og að kaupin veiti Kaldbaki tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu miðbæjarins.
Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að útibúið hafi verið ein af kjarnastarfstöðvum bankans og þar vinni um 30 manns. Hún segir bankann nú horfa í kringum sig í leit að öðru húsnæði. „Staðreyndin er þó sú að þrátt fyrir að útibúið sé bæði stórt og öflugt, er töluvert síðan húsið varð of stórt fyrir starfsemina. Okkur líst því vel á áform nýrra eigenda um að gæða húsið nýju lífi og möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar. Við munum vera áfram í húsinu um tíma en erum farin að líta í kringum okkur eftir nýju húsnæði í bænum.“
Kaldbakur heldur meðal annars utan um eign Samherja í Ice Fresh Seafood, SF III slhf., Kælismiðjunni Frost, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, REM offshore holding og REM Wind. Eigið fé félagsins nam í lok síðasta árs 5,6 milljörðum og voru eignir þess metnar á 10 milljarða.