Um sexleytið í gær kom lögreglan að bifreið utan vegar í Mosfellsbæ. Ökumaðurinn hafði misst annað framhjól undan bifreiðinni og skemmdist hún við óhappið. Ökumaðurinn hafði verið með bifreiðina í dekkjaskiptum þremur dögum áður. Krókur kom á vettvang og flutti bifreiðina á brott.
Bifreið var stöðvuð í Árbænum laust fyrir klukkan eitt í nótt. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum og var skýrsla rituð. Aðeins fimmtán mínútum síðar var bifreiðin stöðvuð aftur í sama hverfi og var þar á ferð sami ökumaður. Vettvangsskýrsla var rituð og lyklar bifreiðarinnar haldlagðir.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Breiðholti þar sem ökumaðurinn notaði ekki stefnuljós. Ökumaðurinn, sem var ung kona, reyndist vera sviptur ökuréttindum. Konan gaf upp ranga kennitölu við afskipti lögreglu og fór ekki að fyrirmælum hennar, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tveir ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptir ökuréttindum.