Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að málum allra hælisleitendanna, sem vísað var úr landi í gærkvöld við mikla eftirtekt, sé lokið á stjórnsýslustigi samkvæmt hennar upplýsingum.
Þá vekur það furðu Katrínar að lögregla hafi forðast myndatökur fjölmiðla í aðgerðum gærkvöldsins þar sem málin eigi erindi við almenning.
Einhverjir hælisleitendanna bíða eftir að mál sitt fari fyrir héraðsdóm en slíkt frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar að sögn Katrínar.
„Lögin gera ekki ráð fyrir því að það að óska eftir endurupptöku eða að leita til dómstóla fresti réttaráhrifum af þeirri ákvörðun. Það er lagaumhverfið sem við búum við,“ segir Katrín.
Katrín segir að umræða mál hælisleitendanna sé einkum tvíþætt; annars vegar snúist hún um framkvæmd lögreglu við brottvísun og hins vegar ákvarðanir þess efnis að veita einstaklingunum ekki vernd.
Hvað varðar framkvæmd lögreglu við brottvísun einstaklinganna, sem allir voru yfir lögaldri, segist Katrín ekki hafa fengið svör við því hvort brotið hafi verið á mannréttindum fatlaðs einstaklings. Mynd í dreifingu á samfélagsmiðlum sýnir lögreglu færa fatlaðan mann inn í lögreglubíl og hafa sjónarvottar kallað aðgerðina „hrikalega“.
„Hvað varðar þessa framkvæmd þá er tvennt sem mér finnst ég ekki hafa svör við en er að leita enn svara við. Það eru annars vegar málefni þessa fatlaða einstaklings. Ég hef til að mynda fengið bréf frá Þroskahjálp, sem telur að þar hafi réttindi verið brotin vegna skorts á réttargæslumanni við meðferð og annað slíkt. Það er eitthvað sem við erum að skoða. Að sjálfsögðu tökum við allar slíkar ábendingar alvarlega,“ segir Katrín. Hefur hún óskað eftir upplýsingum um málefni mannsins, sem og dómsmálaráðuneytinu.
„Og síðan, hvað varðar framkvæmdina almennt, þá vakti furðu mína þessi ráðstöfun að reyna að koma í veg fyrir myndatökur fjölmiðla. Þetta eru umdeild mál. Það er eðlilegt að fólk gagnrýni slíkt. En þessi mál eiga auðvitað erindi við almenning,“ segir Katrín.
Fregnir bárust af því í dag að lögregla hafi leiðbeint starfsmönnum Isavia að hindra myndatökur fjölmiðlafólks með því að lýsa skæru ljósi í átt að því.
Aðspurð segist hún ávallt hafa talað fyrir betra eftirliti með lögreglu en tekur fram að málið sé lögreglunni erfitt.
„En þarna er um að ræða mann í viðkvæmri stöðu, sem okkur ber að taka tillit til,“ segir hún.
Hvað varðar brottvísanirnar sjálfar segir Katrín að ákvarðanir þess efnis hafi legið fyrir í töluverðan tíma, þó hún hafi ekki nákvæma tímasetningu.
„Þá eru einstaklingar upplýstir og síðan er gripið til þess að ráðast í fylgd úr landi ef ekki er brugðist við, eins og ég skil þennan aðdraganda.
Ertu hlynnt svokölluðum móttökubúðum eða flóttamannabúðum, þar sem fólk bíður eftir úrlausn sinna mála við skert frelsi?
„Mörg ríki í kringum okkur eru með slíkar búðir. Það er ekki úrræði sem mér hugnast. Við höfum rekið þá stefnu hér að við viljum koma flóttafólki sem fyrst út í samfélagið. Það kallar á heilmikla vinnu en það er það sem við teljum að þjóni bæði hagsmunum flóttafólks og samfélagsins best. Það hefur ekki verið á dagskrá að breyta því.“