Laust fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um ógnandi aðila í fyrirtæki í hverfi 105 í Reykjavík. Hann var handtekinn, grunaður um brot á lögreglusamþykkt og vistaður í fangageymslu.
Í sama hverfi var ökumaður sektaður á öðrum tímanum í nótt fyrir að aka með of marga farþega.
Tilkynnt var um skemmdarverk um hálfeittleytið í nótt í hverfi 108. Einn var handtekinn vegna málsins og vistaður í fangageymslu lögreglu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ökumaður var sektaður fyrir of hraðan akstur í hverfi 221 í Hafnarfirði um þrjúleytið í nótt. Hann ók á 124 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 80 km. Þá var hægra aðalljós bifreiðarinnar óvirkt og var ökumaðurinn einnig sektaður fyrir það.
Ökumaður var handtekinn um sexleytið í gær grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna í hverfi 200 í Kópavogi. Sá notaði einnig farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Óskað aðstoðar vegna umferðarslyss í sama hverfi laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi. Enginn slasaðist en tvær bifreiðar skemmdust lítillega.
Óskað var aðstoðar vegna umferðarslyss í Breiðholti, en þar var ekið á gangandi vegfaranda. Vegfarandinn kenndi sér einskis meins og var honum ekið heim til sín.