Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, segist hafa beitt sér fyrir því við ríkisstjórnarborðið að reynt verði að mæta örorkulífeyrisþegum upp að ákveðnu marki með sambærilegum aðgerðum og í kringum síðustu jól. Var þá ákveðið að greiða út sérstaka eingreiðslu til þessa hóps í fjáraukalögum. Kom þetta fram í svari hans við fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Inga rifjaði upp að eingreiðslan hefði verið 50 þúsund krónur í fyrra og árið þar á undan óskert. Sagði hún nú ekkert liggja fyrir og vísaði til þess að staðan væri nú mun erfiðari og þyngri en fyrir síðustu jól. „Fólkið okkar, efnaminnsta fólkið okkar, sem berst í bökkum og gerði það fyrir verðbólgubrjálæðið sem við erum að ganga í gegnum núna, er að taka á sig, eins og við öll hin, 9,4% verðbólgu með öllum þeim ömurlegheitum sem því fylgir fyrir fjölskyldurnar og fólkið í landinu,“ sagði Inga.
Guðmundur svaraði því til að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hækka bætur um 3% um mitt ár fyrir örorku- og ellilífeyrisþega og húsnæðisbætur hafi hækkað um 10%. Þá vísaði hann jafnframt til þess að ríkisstjórnin hefði aukið fjárframlög til hjálparstofnana á undanförnum árum og að í fjárlagafrumvarpinu sem nú lægi fyrir Alþingi væri gert ráð fyrir auka 6% hækkun til örorku- og ellilífeyrisþegum. Sagði Guðmundur að þetta ætti að mæta þeirri verðbólgu sem orðið hefur.
Inga brást hins vegar ókvæða við því að Guðmundur hefði nefnt þessi 3% og sagði hana ekki ná í hælana á verðbólgunni undanfarið. Ítrekaði hún einnig að hátt ákall væri um eingreiðslu, en Inga sagði hana hafa kostað 1,1 milljarð í fyrra.
Guðmundur ítrekaði sjálfur að þessi 6% til viðbótar við 3% hækkunina um mitt þetta ár ættu að mæta verðbólgunni. Sagðist hann jafnframt hafa beitt sér fyrir eingreiðslu fyrir áramót og sagðist hann eiga von á að þeirri beiðni verði mætt að einhverju leyti. „Nákvæmlega hver upphæðin er er eitthvað sem liggur í fjáraukalögunum eða frumvarpinu sem verður lagt fram hér á þingi í þessari viku,“ sagði Guðmundur.