„Varðandi uppákomuna áðan, þá erum við ekki hafin yfir gagnrýni eða skoðun. Við viljum að þetta ferli verði allt skoðað,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, stuttu eftir að mótmælendur stormuðu upp á svið á landssamráðsfundi um aðgerðir gegn ofbeldi.
Mótmælendurnir mótmæltu brottvísunum og hafa gagnrýnt framkvæmd þeirra, einkum þegar fötluðum manni, Hussein Hussein, var vísað til Grikklands á dögunum.
Þegar Sigríður var spurð út í aðgerðir gegn ofbeldi og þá sér í lagi gegn fötluðum sagði hún lögregluna ekki hafna yfir gagnrýni og bætti við:
„Við viljum að þetta ferli verði allt skoðað. Það eru allir að gera sitt besta. Við erum fyrsta fólkið til þess að læra af reynslunni,“ sagði hún.
Spurð hvort málið verði skoðað sagði hún: „Umboðsmaður er búinn að fallast á það, við erum búin að tala við allsherjar- og menntamálanefnd, við erum með myndefni,“ sagði hún. Það sé eftirlitið sem fer núna í gang.