Lykilþættir um framtíð friðlýstra svæða

Landmannalaugar eru meðal þeirra svæða sem eru friðlýst hér á …
Landmannalaugar eru meðal þeirra svæða sem eru friðlýst hér á landi, en þau eru innan friðlands að Fjallabaki. Ljósmynd/Daníel Bergmann

Samræming og einföldun í stjórnsýslu, leyfamálum og upplýsingamálum er meðal helstu áskorana sem liggja fyrir þegar kemur að friðlýstum svæðum hér á landi. Þá þarf að móta stefnu um gjaldtöku á svæðunum og vinna nokkurra ára áætlun um mannaflsþörf vegna rekstur svæðanna og áætlun um fjölgun ferðamanna á hverju svæði.

Einnig þarf að samræma og endurskoða löggjöf á sviði náttúruverndar og auka rannsóknir á þolmörkum friðlýstra svæða, enda hefur friðlýsing oft haft í för með sér aukna umferð ferðamanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem vann skýrslu sem varpa átti ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og áskoranir sem þeim fylgja.

Skilgreina þurfi betur almannarétt

Í skýrslunni eru taldir upp 16 lykilþættir og áskoranir sem huga þarf að varðandi friðlýst svæði hér á landi. Auk fyrrnefndra þátta er m.a. lagt til að unnin verði langtímaáætlun um uppbyggingu og rekstur svæðanna og sérstaklega hugað að salernisaðstöðu á viðkvæmum svæðum. Þá er lagt til að stjórnvöld taki upp vinnu við að yfirfara og skilgreina betur almannarétt í náttúruverndarlögum, en það felur í sér heimildir fólks til að ferðast um landið.

Lykilþættirnir 16 sem unnið var með í skýrslunni, en til …
Lykilþættirnir 16 sem unnið var með í skýrslunni, en til viðbótar í umsagnarferli bættist við 17 atriðið sem er traust. Nánar má lesa um hvern lið og áskoranir í skýrslunni sjálfri.

Huga verður að álagstoppum vegna farþega skemmtiferðaskipa

Einnig er lagt til að setja í forgang vinnu við skrá þar sem finna má tillögur um ökuleiðir í náttúru Íslands, m.a. innan friðlýstra svæða, og birta þessa skrá. Einnig að huga þurfi betur að öryggismálum og samræma t.d. fjarskiptamál mismunandi aðila sem koma að málefnum ferðamanna. Þá er sérstaklega minnst á að vinna þyrfti að umgjörð og reglum vegna álagstoppa á friðlýst svæði vegna komu farþega skemmtiferðaskipa.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði nefndina og …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði nefndina og tilkynnti að sett yrði vinna af stað fyrir áramót til að taka niðurstöður skýrslunnar áfram. mbl.is/Sigurður Bogi

Skýrslan var kynnt á fundi í Hörpu í morgun. Í framsögu kom meðal annars fram að við vinnslu skýrslunnar hafi verið fundað með Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem og með ýmsum hagaðilum, svo sem forsvarsmönnum fjölda stofnana sem koma að þessum málum, forsvarsmönnum fjölda félagasamtaka og nokkrum sérfræðingum á þessu sviði. Ekki var tekin afstaða til þess hvort stækka ætti eða fjölga friðlýstum svæðum, en sérstaklega var tekið fram að fjármagn þyrfti að fylgja slíkum verkefnum sem og að eiga samráð við heimamenn og hagaðila.

51% vilja friðlýsa fleiri svæði

Í skýrslunni er einnig birt niðurstaða úr könnun Maskínu sem gerð var á afstöðu landsmanna til friðlýstra svæða. Helstu niðurstöður þar voru að 51% svarenda sögðu að friðlýsa ætti fleiri svæði. 37% svarenda sögðu að friðlýsing væri hæfileg, en 12% sögðu að friðlýsa ætti færri svæði.

Þá sögðust 66% vera fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum og 49% sögðust fylgjandi gjaldtöku að aðgengi á sömu stöðum.

Kjósendur Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks töldu best staðið að verndun náttúrunnar, en kjósendur Sósíalistaflokksins, Pírata og Samfylkingarinnar töldu verst staðið að verndun.

Svarendur sem hafa oft heimsótt þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn Snæfellsjökul vildu að fleiri svæði yrðu friðlýst en þeir sem sjaldnar koma í þjóðgarðana. Ekki virtist þó munur á svörum þeirra sem heimsækja hálendið oft eða sjaldan varðandi þetta atriði.

Á Þingvöllum hefur meðal annars þurft að greiða fyrir bílastæði, …
Á Þingvöllum hefur meðal annars þurft að greiða fyrir bílastæði, en aðgengi er hins vegar gjaldfrjálst. mbl.is

Meirihluti hlynntur gjaldtöku fyrir þjónustu og helmingur fyrir aðgengi

Nokkuð jöfn afstaða var eftir bakgrunni svarenda þegar þeir voru spurðir hvort þeir væru hlynntir gjaldtöku fyrir þjónustu og aðgengi. Þó sker sig úr að íbúar á Reykjanesi voru síst spenntir fyrir slíkri gjaldtöku, sem og kjósendur Sósíalistaflokksins. Tveir þriðju hlutar svarenda töldu þjóðgarða hafa mikið aðdráttarafl fyrir Ísland meðal erlendra ferðamanna

Í skýrslunni eru einnig teknar saman tölur um fjölda gesta á nokkrum friðlýstum svæðum sem og hver opinber fjárframlög vegna reksturs og uppbyggingar friðlýstra svæða hafi verið undanfarin ár. Rétt er þó að minna á að síðustu tvö ár hafa verið nokkuð sérstök þegar kemur að ferðaþjónustu vegna heimsfaraldursins.

Þrír milljarðar á síðasta ári

Framlög á fjárlögum vegna rekstrar friðlýstra svæða nam 1,26 milljörðum á síðasta ári, en sértekjur eða sérstök framlög námu 435 milljónum. Framlag til framkvæmda á friðlýstum svæðum nam 567 milljónum í fyrra. Til viðbótar komu framlög úr landsáætlun til stofnana sem sjá um rekstur þjóðgarðanna, en þau voru í fyrra um 700 milljónir.

Stór hluti allra ferðamanna fer á vinsælustu staðina

Í skýrslunni er varpað ljósi á það hversu mikill fjöldi heimsækir vinsælustu staðina ár hvert og hversu hátt hlutfall ferðamanna fer þangað. Rétt er þó að taka fram að í þessum tölum eru líka íslenskir gestir, en líklegt verður að teljast að erlendir gestir séu langstærsti hlutinn.

Fjöldi ferðamanna á undanförnum árum. Líkt og sjá má fækkaði …
Fjöldi ferðamanna á undanförnum árum. Líkt og sjá má fækkaði þeim talsvert á Covid-árunum.

Fjöldi gesta á Þingvöllum nemur um tveimur þriðju heildarfjölda erlendra gesta sem kemur til landsins. Fjöldi gesta í Reynisfjöru hefur hlutfallslega aukist mikið undanfarið miðað við Þingvelli og var gestafjöldi þar í fyrra svipaður og á Þingvöllum. Enn fleiri gestir sækja Jökulsárlón heim, eða um 80% heildarfjölda ferðamanna. Gestir hjá Geysi voru litlu færri í fyrra, en fjöldi gesta við Gullfoss var um 40% af fjölda erlendra ferðamanna.

Fjöldi gesta, bæði innlendra og erlendra á helstu friðlýstu svæði …
Fjöldi gesta, bæði innlendra og erlendra á helstu friðlýstu svæði landsins. Ljóst er að stór hluti ferðamanna sem koma til ársins ár hvert koma við á vinsælustu stöðunum á ferð sinni um landið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert