Landsréttur staðfesti í síðustu viku gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóm Reykjaness í máli ónafngreinds hælisleitanda sem upphaflega kom til landsins 10. október 2020. Er hælisleitandinn auðkenndur sem varnaraðili, eða X, í dómi héraðsdóms og úrskurði Landsréttar.
Sótti X um alþjóðlega vernd á Íslandi við komu til landsins í október 2020. Synjaði Útlendingastofnun umsókninni 22. janúar 2021 og tók um leið ákvörðun um að X skyldi vísað úr landi. Var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála 25. mars 2021 sem birtur var X fjórum dögum síðar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sem krafðist gæsluvarðhaldsins, kvað X hvorki hafa yfirgefið landið af sjálfsdáðum né verið reiðubúinn að sýna samstarfsvilja í garð íslenskra yfirvalda varðandi flutning hans af landi brott þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.
Þess í stað hafi X haldið ólögmætri dvöl sinni á landinu áfram um þó nokkurt skeið. Benti lögreglustjóri á að til hefði staðið að flytja X frá landinu í vor en hann hafi þá ekki fundist. Hefði lögregla margreynt að ná til hans og að minnsta kosti í tvígang haft samband við talsmenn hans og verjanda án árangurs.
Handtók lögregla X að lokum síðdegis 30. október í kjölfar þess að lýst var eftir honum. Setti stoðdeild ríkislögreglustjóra þá í gang ferli til að flytja hann frá landinu og vísaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum til þess við gæsluvarðhaldsþinghaldið að X væri í ólögmætri dvöl á landinu samanber 49. grein útlendingalaga.
Fyrirséð væri að ekki væri unnt að flytja X frá landinu fyrr en að nokkrum dögum liðnum og var gæsluvarðhaldsins þá krafist til að tryggja að hann hyrfi ekki á nýjan leik. Kvað lögreglustjóri það mat embættisins að ekki væri unnt að beita vægari úrræðum í málinu enda ljóst að X hefði ítrekað virt ákvarðanir yfirvalda að vettugi.
Benti verjandi X á að samkvæmt útlendingalögum skyldi heildstætt mat á atvikum öllum og aðstæðum liggja til grundvallar við ákvörðun um hvort beita skyldi þvingunarúrræðum. Væru engar líkur á að X reyndi að koma sér undan endanlegri ákvörðun. Eins andmælti verjandi því að um hófsama aðgerð af hálfu yfirvalda væri að ræða. Væri hún þvert á móti í algjörri andstöðu við meðalhóf. Þá benti verjandi á að krafa um endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála lægi nú fyrir og aðeins dagaspursmál hvenær af fyrirtöku hennar yrði.
Tók héraðsdómur undir þau sjónarmið lögreglustjóra að gögn málsins bæru með sér að varnaraðili hefði hvorki sinnt fyrirmælum yfirvalda um að yfirgefa landið né sýnt samstarfsvilja í garð yfirvalda. Enn fremur féllst dómurinn á að hætta væri á að X færi huldu höfði og virti ákvörðun um brottvísun að vettugi.
Féllst héraðsdómur því á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald til klukkan 12 á hádegi 4. nóvember og skyldi þóknun skipaðs verjanda X, 111.600 krónur, greiðast úr ríkissjóði.