Tuttugu og tveimur einstaklingum var vísað úr landi í morgun vegna tengsla þeirra við vélhjólagengi. Samkvæmt heimildum mbl.is komu þessir aðilar til landsins til að sækja veisluhöld.
Líkt og mbl.is greindi frá í gær var mikill viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli í gær vegna komu hópsins til landsins. Liggur nú fyrir að sjö voru handteknir á Reykjanesbraut í gærkvöldi og fimmtán teknir til skoðunar á landamærunum.
„Við vorum með upplýsingar um að það væri von á einhverjum aðilum,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á löggæslusviði lögreglustjórans á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
Einstaklingunum sem var vísað úr landi í dag komu með flugvélum frá Þýskalandi og Svíþjóð, en lögum samkvæmt tekur Útlendingastofnun ákvörðun um frávísun að fengnu áhættumati embættis ríkislögreglustjóra.
Seint í gær komu aðrir fimm einstaklingar til landsins sem nú eru til skoðunar hjá lögreglu.
Í frétt Vísis kemur fram að eintaklingarnir séu meðlimir vélhjólagengisins Hells Angels og undirklúbba þess.