„Öfugt við það sem margir halda eru Kínverjar á margan hátt ótrúlega líkir okkur Íslendingum og til dæmis mun líkari okkur en Bretar, sem eru miklu kassalagaðri. Ég hef aldrei fengið leiðinlegar móttökur í Kína; manni er alltaf tekið opnum örmum og ekki spillir fyrir ef maður kann eitthvað smá í kínversku. Þá opnast allar dyr,“ segir Lína Guðlaug Atladóttir brosandi en hún var að senda frá sér bókina Rót – Allt sem þú þarft að vita um Kína og meira til.
„Hafi eitthvað gleymst eða vantar þá er því bara bjargað án þess að fólk fari á límingunum. Þetta reddast-viðhorfið er nefnilega ekkert síður kínverskt en íslenskt. Þegar ég kom fyrst til Kína hélt ég líka að allir væru svo kurteisir og færu í röð en annað kom á daginn; á flugvellinum á leið heim munaði minnstu að ruðst væri yfir dóttur okkar. Tekið var sérstaklega á þessu fyrir Ólympíuleikana 2008 og Kínverjar æfðu sig að fara í röð. Þeir eru alls ekki eins skipulagðir og fólk heldur og oft og tíðum meira fyrir skyndiákvarðanir en langtímaákvarðanir. Svo fara þeir stundum fram úr sér, eins og við Íslendingar. Og eru á seinustu stundu með sumt.“
Lína kveðst með hverri ferðinni til Kína verða meira vör við vestræn áhrif, það á bæði við um matarmenningu, en margar helstu keðjur hafa haslað sér völl eystra, og klæðaburð, sem verði vestrænni með hverju árinu. Nútímavæðingin er sum sé í algleymingi og Lína bendir á í bókinni að Kínverjar dragi alla jafna ekki lappirnar. Iðnvæðingin, sem tók tvær aldir á Vesturlöndum, hafi til dæmis ekki tekið nema þrjá áratugi í Kína.
Nánar er rætt við Línu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.