Eðlilegt að gagnrýna lögreglu

Hjálmar bendir á að nagladekk valdi mikilli svifryksmengun.
Hjálmar bendir á að nagladekk valdi mikilli svifryksmengun.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir það ekki hafa verið óeðlilegt fyrir borgaryfirvöld að gagnrýna lögreglu, eins og gert var með bókun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku.

Hann segir að meðal annars hafi komið fram á fundinum að nagladekkjanotkun í október í Reykjavík í ár hafi verið fimm sinnum meiri en í október í fyrra.

Óheppilegar yfirlýsingar lögreglu

„Samt eru flestir sammála um það að hefur verið einmuna veðurblíða í október og það sem af er nóvember,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

„Við teljum óheppilegt að lögreglan gefi út yfirlýsingu um það að það verði ekki sektað, þó að nagladekkjatímabilið sé ekki hafið, eða að það verði ekki sektað þótt fólk sé á nöglum eftir að nagladekkjatímabili sé lokið.“

Hjálmar segir að þetta sé óheppilegt í ljósi þess hversu nagladekk valda miklu sliti á malbiki og mikilli svifryksmengun.

Vega­gerðin hefur áður bent á að nagla­dekkja­notk­un vegi mjög þungt við mynd­un svifryks­ á höfuðborgarsvæðinu. 

Svifryk í Reykjavík. Nagladekk eiga mestan þátt í því, samkvæmt …
Svifryk í Reykjavík. Nagladekk eiga mestan þátt í því, samkvæmt rannsókn. mbl.is/Árni Sæberg

Mjög sérstakar aðstæður þurfi

Hulda Elsa Björg­vins­dótt­ir, aðstoðarlög­reglu­stjóri á höfuðborg­ar­svæðinu, kvaðst á laugardaginn vera undrandi á bókun borgarfulltrúa. Refsiskilyrði séu ekki til staðar ef umferðaröryggi sé ógnað vegna akstursaðstæðna. Lög­regl­unni sé því gert að taka til­lit til veðurs og aðstæðna í eft­ir­lits­hlut­verki sínu. 

„Ég hef átt erfitt með að sjá að nú í haust hafi verið sérstakar veðurfarsástæður sem geri það nauðsynlegt fyrir lögregluna að gefa þetta út,“ segir Hjálmar.

„Ég er ekkert að gera lítið úr þessu ákvæði, og að það sé lögreglu að meta það, en aðalatriðið er að það er óheppilegt að lögreglan gefi út svona yfirlýsingar. Að mínu mati þurfa að vera mjög sérstakar aðstæður til þess að gera það.“

Bílaleigubílar á nagla í byrjun október

Hann segir ákveðinn þátt í þessu að aftur sé fjöldi bílaleigubíla farinn að sjást á götum borgarinnar.

„Mér er sagt að þeir séu eiginlega allir komnir á nagla strax í byrjun október, löngu áður en að naglatímabil hefst. Það er mjög óheppilegt af því að þá eru í rauninni skattborgarar í Reykjavík að borga fyrir slit sem slíkir bílar valda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert