Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, tókust á í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu í dag um „prinsipp“ ríkisstjórnarinnar hvað varðar skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka.
Kristrún sagði ríkisstjórnina spila pólitískan leik þar sem hún væri sigri hrósandi yfir því að ríkisendurskoðandi minnist ekki á lögbrot í skýrslu sinni.
Þá hafi fjármálaráðherra selt Íslandsbanka með bundið fyrir augun og gefið Alþingi misvísandi upplýsingar í kjölfarið.
„Ég spyr því hæstvirtan menningar- og viðskiptaráðherra: Eru engin prinsipp? Snýst þetta allt um persónur og ráðherrastóla og pólitíska leiki, fremur en traust til embætta og stofnana sem hér eru undir?“ spurði Kristrún.
„Ég vil upplýsa háttvirtan þingmann um það að það er svo sannarlega ekki pólitískur leikur að koma með 600 milljarða inn í ríkissjóð á sínum tíma í formi stöðugleikaframalaga,“ sagði Lilja.
„Það er ekki pólitískur leikur að setja á fjármagnshöft til að tryggja hagsmuni Íslands. Það er ekki pólitískur leikur að segja nei við Icesave,“ sagði Lilja.
Aldrei hefði tekist að selja bankann að andvirði 100 milljarða króna og koma því í verð. „Ég fullyrði að ef það hefði ekki verið Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri græn, þá hefði þetta aldrei tekist, aldrei.“
Því næst steig Kristrún í pontu og gagnrýndi að verklag umhverfis bankasöluna væri ekki rætt frekar.
„Ég veit ekki betur en að það sé pólitískur leikur að draga Icesave inn í umræðuna um sölu Íslandsbanka í vor. Um hvað erum við að tala hérna?“ spurði Kristrún og heyrðist þá kallað úr þingsal: „Prinsipp!“
„Af hverju getum við ekki rætt verklagið hérna? Það er öll þjóðin að fylgjast hér með því hvernig þið ræðið verklagið í þessu ferli og þið farið að ræða um Icesave í þessu samhengi? Skiptir engu máli hvernig hlutirnir eru gerðir? Það er það sem þjóðin vill vita.“
Spurði Kristrún Lilju í kjölfarið hvort hún treysti fjármálaráðherra til þess að leiða frekari sölu á bankanum.
„Það sem um er auðvitað að ræða er stjórnmál. Erum við tilbúin að verja íslenska hagsmuni sama á hvað gengur? Fyrir það stendur til dæmis minn flokkur og hefur gert allan tímann. Staðið í lappirnar gegn því að verið sé að veikja landið okkar.
Í aðdraganda hrunsins og í hruninu voru fjölmargir stjórnmálaflokkar sem voru ekki tilbúnir að gera það. Þeir voru ekki tilbúnir til þess að segja að Icesave sé ekki reikningur þjóðarinnar. Þetta skiptir máli vegna þess að þetta segir til um fyrir hvað við stöndum.“
Lilja kvaðst treysta Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til þess að leiða frekari sölu bankans.
„Ég vil ítreka þó að við eigum eftir að fá skýrslu Fjármálaeftirlitsins til þess að fá heildarmynd á því hvernig salan tiltókst.“