„Mín viðbrögð eru í sjálfu sér ekki mjög flókin. Mér finnst að þetta eigi ekki að geta komið fyrir. Mér finnst að við verðum að komast til botns í þessu máli, hvers vegna þetta gerist, ekki síður en því hver gerir þetta. Þarna liggja viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar eiginlega undir,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðismanna sem á jafnframt sæti sem varamaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, spurður út í lekann á Íslandsbankaskýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Skýrslan var í örfárra höndum sem voru beðnir sérstaklega um trúnað, með sérstöku bréfi frá forseta þingsins.“
„Ég hef nú sjálfur tamið mér þá reglu undanfarin ár, alveg óháð þessu máli, að ég neita að taka við trúnaðarupplýsingum í þeim nefndum sem ég hef starfað út af þessari lekahættu. En ég veit að það er ekki alveg mögulegt í öllum nefndum þingsins, og nefni þá kannski helst utanríkismálanefnd.“
Þegar Haraldur er spurður um innihald skýrslunnar og umræðuna sem hefur verið í kjölfarið í þingheimi segir hann að hún sé svipuð umræðunni í vor.
„Mér finnst þetta svolítið sami púðurreykurinn eins og var í vor. Ég tók eftir því í umræðunni í gær [fyrradag] að hún varð fljótlega eins og framhald af umræðunni á vormánuðum þar sem menn voru með einhverjar getgátur og voru að festast í einhverjum aukaatriðum. Hins vegar tek ég eftir viðbrögðum bankasýslunnar í dag [gær] og mér finnst þau vera þess eðlis að þar þarf stjórnsýslunefnd að láta sig þau viðbrögð varða. Ég treysti þeim í nefndinni vel til að vinna faglega að því máli.“
Haraldur segir það sérstakt að í allri þessari umræðu á vormánuðum og síðar hafi ekkert verið leitað til fjárlaganefndar um þær kynningar sem þar fóru fram á söluferlinu.
„Við studdumst við greinagerð ráðherra undir þegar við skiluðum okkar meirihlutaáliti um markmið. Tilboðsleiðin var og rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir. Þetta voru allt saman atriði sem voru rædd og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina. Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar,“ segir hann.
„Þess vegna kalla ég þetta púðurreyk. Þú sérð á álitum meirihluta nefndarinnar og minnihluta að þar er reifað mikilvægi þess að fá dreift eignarhald og að fá erlent eignarhald. Þetta er allt til vitnis um það að þetta var rætt í fjárlaganefnd í umfjöllun um greinargerð ráðherrans. Það gat komið niður á hæsta mögulega verði. Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman.“