Aðstandendur í stöðugum ótta og í felum

Ljósmynd/Aðsend

Aðstandendur meintra gerenda í stunguárásarmálinu á Bankastræti Club í síðustu viku upplifa stöðugan ótta vegna árása og hótana í þeirra garð af hálfu einstaklinga sem tilheyra sama hópi og þeir sem ráðist var á.

Aðstandandi sem mbl.is ræddi við segir að um sé að ræða ákveðinn félagsskap sem hafi áður unnið eignaspjöll á eigum meintra gerenda og ráðist á og hótað aðstandendum þeirra. Höfuðpaur hópsins sitji nú í fangelsi fyrir fjölda brota.

„Maður er náttúrlega skíthræddur, ég held ég sé búin að hringja þrisvar í lögregluna og láta vita af hótunum sem gætu tengst mér, en það er alltaf sama svarið: við getum ekkert gert til að stöðva þetta, við verðum að bíða eftir því að eitthvað gerist,“ segir aðstandandinn um viðbrögð lögreglu.

Ráðist á unglingsdreng sem tengist geranda

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að verið væri að ógna fjölskyldum. Meðal annars hefði bensínsprengju verið kastað á heimili einstaklings sem tengist málinu og rúður verið brotnar. Hann sagði viðbrögð lögreglunnar felast í auknum viðbúnaði og að næstu skref væru í skoðun. „Það verður gripið til aðgerða,“ sagði hann jafnframt.

Aðstandandinn segir fjölskyldur hafa flúið höfuðborgina vegna árása og hótana og séu nú í felum úti á landi. Ráðist hafi verið á dreng á unglingsaldri um helgina, sem tengist einum meintum geranda í málinu, og honum veittir áverkar þannig hann þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi. Einnig hafi rúður verið brotnar og grjóthnullungum verið kastað inn á heimili þungaðrar konu með ung börn. Fólk sé mjög hrætt og finni fyrir miklu varnarleysi.

Stunguárásin átti sér stað á skemmistaðnum Bankastræti Club.
Stunguárásin átti sér stað á skemmistaðnum Bankastræti Club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gorta af myndböndum af árásum

Aðstandandinn segir virkilega erfitt að búa við stöðugan ótta og vita ekkert hvenær eða hvort árás verði gerð.

„Sérstaklega þar sem maður tengist þessu í raun ekki neitt, því það er aðstandandi manns sem gerir eitthvað af sér og það bitnar á manni sjálfum, sem er náttúrlega ömurlegt.“

Aðstandandinn segir hópinn jafnframt gorta sig af því að hafa í fórum sínum myndbönd af árásum á fjölskyldu og vini þeirra sem eru grunaðir um að eiga hlut að stungurárásarmálinu.

Lögreglan telur að um þrjátíu einstaklingar hafi tekið þátt í árásinni, en 21 hefur verið handtekinn og sex verið sleppt. Þrír særðust.

Í samtali við mbl.is í morgun sagðist Margeir telja að langvarandi deilur lægju að baki árásinni. Enn stendur yfir leit að sjö til átta manns og umræða hefur verið um að einhverjir hafi flúið land. Margeir gat hins vegar ekki staðfest það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert