Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lýst yfir stríði gegn skipulagðri brotastarfsemi. Hann segir í samtali við mbl.is það ekki vera sitt hlutverk að fegra hlutina fyrir almenning heldur sé mikilvægt að fólk átti sig á stöðunni.
Hann segist ekki telja að yfirlýsing hans um stríð auki hræðslu á meðal almennings.
„Það er mikilvægt að almenningur og aðrir geri sér grein fyrir því sem ég er búinn að vera að vekja athygli á meira og minna allt þetta ár,“ segir Jón.
„Það hefur komið fram í skýrslum frá ríkislögreglustjóra, ítrekað, þar sem við erum vöruð við þessari þróun sem hefur verið að eiga sér stað hér á landi og er komin á þann stað að það eru engin vettlingatök sem duga í því að takast á við þessi vandamál.
Að vera eitthvað að reyna að fegra þá mynd fyrir fólki er ekki mitt hlutverk. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari stöðu.“
Hann segist hafa lagt áherslu á þessu ári á að þingið, þingflokkar og ríkisstjórnin séu vel upplýst um stöðu mála.
„Ég er með beiðni núna – sem ég vona að rati inn í fjárlagagerðina fyrir næsta ár – til þess að geta styrkt mikið starfsemi lögreglu og þeirra sem að þessum málum koma, til þess að geta svarað þessu af auknum þunga.“
Jón vonast til að frumvarp sem ráðuneytið hefur unnið að um afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir verði samþykkt fyrir árslok. Hann bindur vonir við að það muni hafa áhrif á aukna glæpastarfsemi hér á landi.
„Um leið og fólk fer að kynna sér það frumvarp í heildina og það sem því fylgir, sem er veruleg styrking á starfsemi eftirlitsnefndar með störfum lögreglu, þá held ég að það geti orðið víðtæk sátt um það mál og fólk fari að sjá í gegnum málflutning ákveðinna þingmanna þar sem dregin var upp einhver kolröng mynd, eins og gjarnan er nú gert.“
Jón segir að það sé mun alvarlega að ákveðnir þingmenn stjórnarandstöðunnar séu að villa um fyrir fólki en segja fólki sannleikann.
„Ábyrgð þingsins er mikil í því að það verði hægt að bregðast af fullum þunga við þessari alvarlegu þróun.“
Telur þú að aukinn vopnaburður verði til skoðunar?
„Já já, ég hef lagt mikla áherslu á það að auka varnir lögreglumanna til þess að gera þeim betur kleift að tryggja öryggi borgaranna.“
Jón segir þó að ekki sé í bígerð að breyta aðgangi lögreglu að skotvopnum í sínum störfum.
„Hann er í sjálfu sér fullnægjandi eins og staðan er að mínu mati. Við höfum á undanförnum árum lagt aukna áherslu á þjálfun lögreglumanna í meðferð skotvopna, um það gilda mjög strangar verklagsreglur hjá lögreglunni hvenær þau eru mögulega notuð.
En við sjáum þróunina sem er að verða, og fréttaflutningur er nánast vikulegur, að það sé þessi aukni vopnaburður, þá kannski hnífaburður og slíkt. Lögreglan hefur auðvitað mjög takmörkuð úrræði til að beita sér þegar um slík vopn er að ræða,“ segir hann og bætir við að þar þurfi að bæta úr öryggi lögreglunnar.
„Við megum aldrei gleyma því að lögreglumenn lifa svolítið í annarri veröld en við hin, sem vilja geta um frjálst höfuð strokið í okkar samfélagi, í okkar dagsdaglega lífi. Þetta fólk er stöðugt að glíma við þessa dökku hlið samfélagsins og þetta fólk á líka fjölskyldur sem vilja fá sitt fólk heilt heim úr vinnu.
Ég legg mikla áherslu á það að við stígum öll þau skref sem nauðsynleg og möguleg eru til þess að auka öryggi lögreglumanna í sínum störfum,“ segir Jón að lokum.