Maðurinn sem lést í umferðarslysi á horni Barónsstígs og Grettisgötu á laugardagskvöld var á sínu eigin rafhlaupahjóli. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Talið er að maðurinn sem lést hafi ekið inn í hlið rútunnar og hafnað undir henni. Um borð í rútunni voru á bilinu 20 til 30 farþegar sem margir hverjir þáðu áfallahjálp Rauða krossins.
Fyrr í dag var greint frá því að lögregla, ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa, rannsökuðu nú slysið; vettvang, tildrög og rafhlaupahjólið sjálft.
Inntur eftir upplýsingum um gang mála segir Guðmundur þá rannsókn í farvegi.
„Við bara skoðum það, lögreglan skoðar það og kannar hvort það sé búið að rjúfa innsigli og annað.“